Get montað mig af Íslandi

Það snjóar hressilega á leiðinni á Bessastaði og skyggni er lítið sem ekkert. En um leið og blaðamaður nálgast Álftanes birtir til og undurfallegt útsýni blasir við; höfuðborgin handan við fjörðinn og hrímhvít Esjan. Forsetafrúin Eliza Reid tekur á móti blaðamanni og býður inn í bókaherbergi þar sem við fáum okkur sæti og því lýstur niður í huga blaðamanns að þarna hefur margt gott fólk áður hist, þjóðhöfðingjar og annað fyrirfólk. Það er alltaf hátíðlegt að koma á Bessastaði og gaman að fá að setjast niður í kaffi með forsetafrúnni sem nú hefur gefið út sína fyrstu bók, Sprakka.

Saga margra íslenskra kvenna

„Ég hugsaði að ég gæti kannski sagt þessa sögu því mér finnast jafnréttismál mjög mikilvæg, ég hef reynslu í blaðamennsku og sé hlutina með gests auga,“ segir Eliza og hófst hún þá handa að skrifa Sprakka, en það er gamalt orð yfir kvenskörunga. Tók hún viðtöl við fjölda íslenskra kvenna sem hún valdi vandlega og segir hún þær allar kvenskörunga en á sama tíma venjulegar konur.

Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, hefur gefið út bókina Sprakkar sem …
Forsetafrú Íslands, Eliza Reid, hefur gefið út bókina Sprakkar sem fjallar um líf hennar og annarra íslenskra valkyrja. mbl.is/Ásdís

„Ég vildi ekki bara segja mína sögu og er Sprakkar því saga margra íslenskra kvenna og á bókin að vera létt, jákvæð og raunsæ,“ segir Eliza og segir bókina koma út erlendis í febrúar, en íslenska útgáfan er komin út.

„Bókin er fyrst og fremst hugsuð fyrir erlendan leshóp en ég vona að Íslendingar muni lesa hana. Ég vil að fólk upplifi við lesturinn að því líði eins og það sé í kaffispjalli hjá mér.“

Ástin í bolla

Að loknu háskólanámi í Toronto flutti Eliza til Englands og nam sagnfræði í St. Antony’s College við Oxford-háskóla. Þar kynntist hún manni sínum, Guðna Th. Jóhannessyni, sem síðar átti eftir að verða forseti.

„Ég var 22 ára og hann þrítugur og ég hélt fyrst að hann væri mun yngri; hann var svo unglegur. Mér fannst hann ofboðslega gamall!“ segir hún og skellihlær.
„Hann var þá skilinn og átti unga dóttur en við vorum á svipuðum stað í lífinu, bæði í námi og hvorugt tilbúin að gifta okkur eða eignast strax börn saman. Hann var auðvitað búin að lifa meira og var kannski þroskaðri en ég,“ segir Eliza og segir söguna af því hvernig upphaf þeirra sambands kom til.

„Ég ákvað aðeins að ýta á örlögin, en við höfðum hist og mér fannst hann áhugaverður. Það gafst tækifæri til að kynnast betur þegar haldin var tombóla til að safna fyrir róðrarliðinu. Konur gátu keypt miða og áttu að skrifa nafn sitt á hann og setja í bolla hjá körlunum. Þeir drógu svo miða og áttu að bjóða þeirri konu út að borða. Ég keypti tíu miða og ákvað að setja næstum alla miðanna í hans bolla,“ segir hún kímin.

„Ég sagði honum svo síðar frá þessu. Kannski er þetta mitt mottó í lífinu; að grípa tækifærin þegar þau gefast.“

Sjokk að missa vinnuna

Eftir námið flutti parið til Íslands, enda kom ekki annað til greina þar sem dóttir Guðna bjó hér. Eliza dreif sig strax á íslenskunámskeið og var fljót að aðlagast íslensku samfélagi.
„Ég var heppin að komast á íslenskunámskeið viku eftir að ég kom hingað, en ég segi heppin því það er alveg hægt að búa hér án þess að kunna að bjóða góðan dag, sérstaklega ef enska er þitt móðurmál. Ég vildi ekki bíða með þetta. Að læra tungumálið hefur alltaf verið hluti af lífinu mínu hér og ég er alltaf að reyna að bæta mig,“ segir Eliza og segir þau sem tala íslensku að móðurmáli verða að sýna þeim meiri þolinmæði sem enn eru að læra málið.
„Námið þarf að vera aðgengilegra og ódýrara. Það hefur verið mér mjög mikilvægt að læra málið en ég er ekki að segja að allir þurfi þess. En það hjálpar innflytjendum sem ætla að vera hér til langs tíma.“

Fyrsta starf Elizu á Íslandi var við markaðsmál hjá litlu fyrirtæki.

„Ég kom til Íslands vegna Guðna en vildi ekki vera hér bara hans vegna, heldur byggja upp mína eigin tilveru. Mína eigin vinnu, minn eigin vinahóp og mín eigin áhugamál. Ég fékk starf sem var auglýst í Morgunblaðinu og var frekar stolt af því að fá það vegna minnar eigin reynslu, en ekki í gegnum tengslanet mannsins míns. En ári seinna var mér sagt upp og það var mikið sjokk og mjög erfitt. Það er ekki gott fyrir sjálfstraustið en allt er þetta reynsla. Á þessum tíma var Guðni á Rannís-styrk og ég var með miklu hærri laun en hann. Það var ekki auðvelt að finna nýtt starf í annað sinn, þó ég væri dugleg að sækja um. Ég tók að mér ýmis greinaskrif á ensku og prófarkalestur og allt í einu var það orðið að fullu starfi. Svo fékk ég fimmtíu prósent starf sem blaðamaður á Iceland Review og var það þá ágætisblanda, að hafa fasta vinnu en einnig vinna frílans,“ segir Eliza og segist hafa síðan misst starfið í hruninu þegar öllum föstum blaðamönnum var sagt upp. Hún hefur þó haft nóg að gera síðan og fengist við fjölbreytt verkefni, meðal annars sem forsetafrú.

Fólk virðir einkalíf okkar

Árið 2016 var ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson forseti gæfi ekki aftur kost á sér. Fólk víða að úr samfélaginu hvatti Guðna til að bjóða sig fram og ákvað hann að slá til.

Fannst þér þetta strax góð hugmynd?

„Já. Fyrst og fremst af því mér fannst að hann yrði frábær forseti. Þetta er eins og þegar ég setti alla miðana í bollann hans; þegar örlögin banka upp á, þá á að grípa tækifærið. Ég hugsaði það þannig að ef hann vildi gera þetta og héldi að hann gæti gert þetta vel, hverju er þá að tapa? Ef hann myndi tapa kosningunum myndum við bara halda áfram með okkar góða líf. Og ef hann hefði ekki boðið sig fram, hefði hann kannski alltaf séð eftir því,“ segir hún.

Forsetahjónin á svölum Alþingishússins heilsa fólkinu í landinu daginn sem …
Forsetahjónin á svölum Alþingishússins heilsa fólkinu í landinu daginn sem Guðni Th. Jóhannesson varð forseti Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson


„Það að vera þjóðhöfðingi á Íslandi veldur ekki stórvægilegum breytingum á högum fjölskyldunnar. Lífið breytist, en ekki jafn mikið og það myndi gera í öðrum löndum hjá þjóðhöfðingjum. Fólk hér virðir einkalíf okkar.“

Konur og hrútskýringar

Talið víkur að aðalefni bókarinnar, jafnrétti.

„Mér finnst þetta svo mikilvægt málefni og það er jákvætt í okkar samfélagi að við erum ekki að tala um hvort kynjajafnrétti sé mikilvægt heldur frekar hvernig við eigum að ná því betur fram. En það er ekki þannig í öllum samfélögum. Með þessari bók vona ég að fólk sjái að jafnrétti er betra fyrir alla og allt samfélagið,“ segir hún og segir afar mikilvægt að konur taki sitt pláss.

Eliza vill ekki einungis að íslenskar konur taki meira pláss og láti raddir sínar heyrast, heldur líka konur af erlendum uppruna sem hér búa.

„Ég get að því leyti verið fyrirmynd. Því eldri sem ég verð, því mikilvægari finnst mér fyrirmyndir. Það er mikilvægt að sýna að allir Íslendingar eru ekki með hvíta húð og heita Guðrún eða Jón. Ég tala auðvitað með hreim og tala ekki alltaf rétt, en þú skilur hvað ég er að segja.“

Eliza nefnir einnig að bæta þurfi hlut kvenna í viðskiptaheiminum.

„Ég held að allar íslenskar konur hafi lent í hrútskýringum,“ segir hún.

Ástarbréf til Íslands

„Við þurfum að gæta jafnvægis í íslensku atvinnulífi. Þess vegna er gott að hafa félög eins og Félag kvenna í atvinnulífinu sem byggja upp tengslanet kvenna. Ég ræði um það í bókinni ásamt því að tala um fyrirmyndir og kynjakvóta. En það sem kom kannski mest á óvart sem ég sá reyndar eftir á, var að konurnar sem ég tók viðtöl við töluðu ekki mikið um vandamál við að finna jafnvægi milli vinnu og heimilislífs, en erlendis er þetta oft nefnt sem stærsta áskorun kvenna. Það er erfitt að vera í ábyrgðarstöðu og reka heimili, og á ekki bara að hvíla á herðum kvenna en það er ekki eins mikið vandamál hér og það finnst mér jákvætt,“ segir Eliza.

„Ég kalla bókina líka mitt ástarbréf til Íslands því mér …
„Ég kalla bókina líka mitt ástarbréf til Íslands því mér þykir svo vænt um landið,“ segir Eliza. mbl.is/Ásdís

„Ég kalla bókina líka mitt ástarbréf til Íslands því mér þykir svo vænt um landið. Ég fæddist ekki hér fyrir tilviljun heldur þurfti að ákveða að Ísland yrði landið mitt og því finnst mér ég aðeins geta montað mig meira erlendis af landinu. Ég er stolt að vera Íslendingur og af því sem við erum að gera.“

Ítarlegt viðtal er við forsetafrúnna Elizu Reid í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert