Heitt súkkulaði og jólaminningar

Arnfríður selur heitt súkkulaði í hátíðarvagni í Lækjargötu og er …
Arnfríður selur heitt súkkulaði í hátíðarvagni í Lækjargötu og er strax komin með fastakúnna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er svo gaman að skapa jólaminningar hjá fólki. Í gær kom heil fjölskylda til mín sem var á bæjarrölti og keypti heitt súkkulaði og hlustaði á jólatónlist sem er svo yndislegt. Það er hægt að gera þetta að jólahefð, að fara í miðbæinn og fá sér heitt súkkulaði. Ég er strax komin með fastakúnna!“ segir Arnfríður Helgadóttir sem opnaði nýlega Hátíðarvagninn á Bernhöftstorfunni í miðbænum.

Að fullkomna uppskriftir

„Mig hefur alltaf langað til að eiga minn eigin rekstur. Ég byrjaði í febrúar að vinna í þessu og vorum við systurnar marga mánuði að fullkomna uppskriftina. Svo bættist við Bismarck og appelsínusúkkulaði og það tók enn lengri tíma að fullkomna þær uppskriftir. Við prófuðum okkur áfram heima hjá henni og buðum fólki í smakk,“ segir Arnfríður.

Þeir líta vel út bollarnir af súkkulaði með rjóma!
Þeir líta vel út bollarnir af súkkulaði með rjóma!

 „Við þurftum að finna fullkomið bland af súkkulaði á móti mjólk, en við notum hágæðasúkkulaði. Við erum með fimm tegundir af súkkulaði og allt búið til frá grunni í vagninum. Það er klassískt, saltkaramellu, Bismarck, appelsínu og karamellu, og svo vegan. Við erum svo með alvöru rjóma, og vegan rjóma, sem við þeytum á staðnum og eins súkkulaðirjóma,“ segir Arnfríður og segist einnig bjóða upp á piparkökur.

Fólk er ánægt með framtakið og finnst gott að fá …
Fólk er ánægt með framtakið og finnst gott að fá sér heitt súkkulaði í kuldanum á aðventunni. Kristinn Magnússon

Var í þremur vinnum

Þá var eftir að stofna fyrirtæki, kaupa vagn, breyta honum, fá öll tilskilin leyfi og hefjast handa!

„Sandra systir mín flutti til LA í haust og ég þurfti þá að sjá um þetta sjálf. Ég er búin að vera í þremur vinnum með skóla en ég er á síðasta ári í Menntaskólanum við Sund. Ég hef unnið hjá Hraðlestinni, World Class og 66°. Ég er búin að vinna og vinna til að safna mér fyrir vagni og svo vildi svo heppilega til að pabbi vinkonu minnar var að selja vagninn sinn og ég fékk að borga hann með raðgreiðslum. Þetta var stærsti kostnaðarliðurinn, og ég vil taka fram að ég vann fyrir hverri krónu en ég er búin að leggja í þetta tvær milljónir. Sumir halda að pabbi standi að baki þessu en það er alls ekki satt.“
 
„Ég stend hér vaktina sjálf og hef tekið mér pásu í hinum vinnunum,“ segir Arnfríður og bætir við að opið sé virka daga frá annaðhvort 16 eða 18 til 21 og um helgar frá 11 til 21.

Það er jólalegt hjá henni Arnfríði. Hún segist vilja skapa …
Það er jólalegt hjá henni Arnfríði. Hún segist vilja skapa nýja jólahefð hjá fólki og nýtur þess að sjá ánægða viðskiptavini í miðbænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hin unga viðskiptakona ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

„Mig langar að vera arkítekt og reka mína eigin stofu og jafnvel eiga húsgagnabúð líka.“

Nánar er rætt við Arnfríði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert