Vegfarandinn sem ekið var á við Sprengisand í gærkvöldi hafði stigið úr bifreið sinni vegna bilunar bílsins. Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
„Maðurinn var að vinna við hann í vegkanti þegar ekið er á hann. Hann var fluttur talsvert slasaður á slysadeild,“ segir Ásgeir og bætir við að lögreglan hafi ekki upplýsingar um líðan mannsins að svo stöddu.
Ásgeir segist ekki geta veitt upplýsingar um á hvaða hraða var ekið á manninn en þess má geta að á stoðbrautinni er 80 km hámarkshraði. „Þetta orsakast þannig að bíll skiptir um akrein þegar hann heldur að um auða akrein sé að ræða fyrir framan sig, en svo er akreinin ekkert auð.“
„Þegar við erum ekki með snjóinn til þess að lýsa upp svartasta skammdegið í mikilli umferð þá skapast hættan,“ segir Ásgeir
Hvernig ráðleggur þú fólki að aðhafast í þessum aðstæðum?
„Setja hazard ljósin á ef bílinn er ekki rafmagnslaus. Þá er ekki síður mikilvægt er að setja viðvörunarþríhyrningin nógu langt frá bílnum. Þá eru allavega líkur á því að bíll sem kemur á sömu akrein byrja á að keyra á þríhyrningin eða sjái hann og hafi tíma til þess að bregðast við,“ segir Ásgeir og bætir við að þríhyrninginn eigi að setja í allt að 100 metra fjarlægð frá bílnum.
Hann segir einnig mikilvægt að standa ekki inni á akreininni nema sé búið að tryggja vettvang. „Annars ertu að bjóða hættunni heim, umferðin er hröð og sérstaklega á stoðbrautunum.“