Munnvatnssýni einungis leyfð sem undantekning

Hraðpróf barna þar sem notuð eru munnvatnssýni eru einungis leyfð í undantekningartilfellum að sögn Sig­ríðar Dóru Magnús­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra lækn­inga hjá heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Lára Sól­ey Jó­hanns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands, benti á það á Facebook-síðu sinni að hægt væri að óska eft­ir því hjá heilsu­gæsl­unni að munnvatnssýni yrðu tekin í stað nefkokssýna.

Sigríður Dóra áréttir að um sé misskilning að ræða. „Munnvatnssýni eru ekki áreiðanleg og þau eru eingöngu notuð í undantekningartilvikum,“ segir hún í samtali við mbl.is og bætir við að Heilsugæslan sé að vinna í því að leiðrétta þennan misskilning.

Hvað telst til undantekningar?

„Ef það næst engin samvinna um að taka úr nefi eða koki. Auðvitað verður maður alltaf að meta ástæðuna fyrir því að börnin eru að koma í sýnatöku. Það er annað ef þú ert að koma til þess að losna úr smitgát heldur en ef þú ert að fara í leikhús.“

Sigríður Dóra segir mikilvægt að undirstrika að munnvatnssýni eru almennt ekki viðurkennd sýnatökuleið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert