Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir jólamarkaði í Heiðmörk allar aðventuhelgar og var opnunardagurinn í hádeginu í dag.
Skrautið á jólamarkaðstrénu var afhjúpað klukkan 12 en það er Védís Jónsdóttir hönnuður sem bjó skrautið til úr gömlum, óseljanlegum lopapeysum úr fataflokkun Rauða krossins.
Sönghópur Norðlingaskóla tók jafnframt lagið.
Fleiri viðburðir eru á dagskrá í dag. Rithöfundarnir Þórarinn Leifsson og Sigrún Eldjárn lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum yfir varðeldi í Rjóðrinu, sem er grenilundur við Elliðavatnsbæinn.
Jólatrjáasala félagsins er á sínum stað og handverksmarkaður með spennandi varningi verður staðsettur í Elliðavatnsbænum „þar sem er einstaklega huggulegur salur með steinhlöðnum veggjum“, að því er segir í tilkynningu.