Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins báru fram fyrirspurn í átta liðum um Malbikunarstöðina Höfða á fundi borgarráðs nýverið. Þar var m.a. spurt um áætlaðan kostnað af flutningi stöðvarinnar á nýja lóð í Hafnarfirði. Einnig hvernig flutningarnir verða fjármagnaðir og hvort borgin ætli að ganga í ábyrgðir fyrir félagið í því samhengi.
Þá var spurt hvernig á því stæði að Höfði skilaði neikvæðri rekstrarniðurstöðu á síðasta rekstrarári og hvort von væri á betri niðurstöðu fyrir þetta ár. Einnig hvaða áhrif flutningurinn á nýja lóð myndi hafa á starfsemina og hvort nýja staðsetningin væri hugsuð til lengri tíma. Auk þess var spurt um ástæður þess að Malbikunarstöðin Höfði var valin í meirihluta útboða hjá Reykjavíkurborg en gekk ekki eins vel í útboðum hjá Vegagerðinni. Loks hvort komið hefði til álita að selja stöðina í stað þess að leggja í kostnaðarsama flutninga.
„Malbikunarstöðin Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar og borgin kaupir síðan malbik af þessari stöð sem hún á sjálf. Í staðinn fyrir að selja þessa stöð og fara út af þessum markaði, eins og væri skynsamlegt, þá stefnir borgin á að flytja hana í Hafnarfjörð. Það er algjör tímaskekkja að Reykjavíkurborg sé að reisa og reka malbikunarstöð. Svo er táknrænt að ekki tókst að finna heppilega lóð fyrir þessa starfsemi í landi Reykjavíkur. Það er mjög sérstakt,“ segir Eyþór Arnalds, borgarráðsmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, við Morgunblaðið.