Prestar Fossvogsprestakalls, ásamt organista Bústaðakirkju og söngfólki komu fram í Kringlunni kl. þrjú í dag. Þar glöddu þau gesti og gangandi með söng og góðum orðum.
Í tilkynningu frá Fossvogsprestakalli kemur fram að Jónas Þórir hafi leikið undir á Hammond-orgel hjá Marteini Snævari Sigurðssyni, sem söng lagið Gleði og friðar jól. Þá söng Ísabella Leifsdóttir lagið Jólin alls staðar og Bjarni Atlason söng Bæn einstæðingsins, við undirleik Jónasar Þóris.
Um leið vöktu prestar Fossvogsprestakalls, ásamt Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar athygli á mikilvægu starfi Hjálparstarfsins, en jólasöfnunin hefst á morgun, fyrsta sunnudag í aðventu.
Í tilkynningunni kemur fram að 1707 fjölskyldur um land allt hafi fengið inneignarkort fyrir matvöru og fleira fyrir jólin, og er búist við svipuðum fjölda umsókna nú í ár.
„Auk inneignarkorta fær fólk í brýnni þörf notaðan sparifatnað og foreldrar fá m.a. aðstoð svo börnin fái jóla- og skógjafir. Aðstoðin er veitt í góðri samvinnu við Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Mæðrastyrksnefndir og kirkjusóknir vítt um landið og með frábærum stuðningi frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum,“ segir m.a. í tilkynningunni.
„Starfsfólk og prestar Fossvogsprestakalls vildu með framtakinu vekja athygli á þeim ofurkrafti sem virkjast í samfélaginu fyrir jólin, það er hjálpseminni, sem Hjálparstarf kirkjunnar er ríkur farvegur fyrir,“ segir að lokum í tilkynningunni.