Ekkert óeðlilegt að einhverjar breytingar séu á kjörtímabili

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson, verðandi dómsmálaráðherra, segir að ekkert óeðlilegt sé við það að einhverjar breytingar séu á kjörtímabili við skipanir en Bjarni Bene­diks­son greindi frá því í há­deg­is­frétt­um RÚV að Guðrún Haf­steins­dótt­ir muni í síðasta lagi taka við af Jóni Gunn­ars­syni sem dóms­málaráðherra eft­ir 18 mánuði.

„Við leggjum bara upp með þetta og það er bara hið besta mál,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Mér lýst bara ágætlega á þetta og er bara þakklátur fyrir það traust sem að formaður flokksins og þingflokkurinn sýna mér tilnefna mig í þetta.“

Nýjar áherslur fylgi nýju fólki

Jón segir ráðuneytið vera stórt og viðamikið og með gríðarlega mikilvæga málaflokka og þar verði í mörg horn að líta í þeim efnum. Hann segist þurfa smá andrými til þess að glöggva á áherslum og stöðu mála.

„Ég tek náttúrulega bara fyrst og fremst við fínu búi í dómsmálaráðuneytinu en auðvitað fylgja alltaf einhverjar nýjar áherslur í nýju fólki. Ég fer að setja mig núna yfir þetta og sé hvernig landið liggur,“ segir hann.

„Eins og ég segi, það er ekkert eitt eða tvö mál sem koma sérstaklega upp í huga, þetta eru miklir og mikilvægir málaflokkar í okkar samfélagi og sem þarf að hlúa vel að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert