Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Þetta er meðal þess sem sett er fram í aðgerðaáætlun nýrrar ríkisstjórnar og lesa má um í nýjum stjórnarsáttmála. Horfa á til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum.
Tekið er fram að gera eigi eldra fólki kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði m.a. með auknum sveigjanleika í starfslokum og er það sérstaklega nefnt um störf hjá hinu opinbera.
Þá segir jafnframt að mæta þurfi þeim sem búi við háan húsnæðiskostnað með auknum stuðningi og auknu framboði af ódýru leiguhúsnæði fyrir aldraða, en gera á það í samstarfi við sveitarfélög og samtök aldraðra.