Fyllstu ástæður til að hafa áhyggjur af Ómíkron

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held það séu fyllstu ástæður miðað við þær upplýsingar sem eru alltaf að berast inn að hafa áhyggjur af þessu afbrigði og það er náttúrulega margt sem er ekki vitað núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Þórólfur bendir á um sé að ræða veiru sem sé búin að stökkbreytast gríðarlega mikið og miklu meira en önnur afbrigði. Auk þess sé mikið sem ekki sé vitað um og þurfi því að athuga.

„Við eigum eftir að fá nánari upplýsingar um veiruna. Smitast hún miklu auðveldar en Delta-afbrigðið? Veldur hún alvarlegri sjúkdómi eða annars konar sjúkdómi? Sleppur hún undan bóluefnunum? Þetta eru áhyggjuefnin,“ segir Þórólfur.

Ekki tímabært að ræða frekari aðgerðir á landamærum

Reglur voru hertar á landamærunum í gær í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Ferðalang­ar sem koma til lands­ins og hafa dvalið í meira en sól­ar­hring á skil­greind­um háá­hættu­svæðum síðastliðnar tvær vik­ur verður skylt að fara í PCR-próf við kom­una til lands­ins og síðan að sæta fimm daga sótt­kví sem lýk­ur með öðru PCR-prófi á síðasta degi sótt­kví­ar. 

Þórólfur segir ekki tímabært að ræða hvort að það sé tilefni til að herða aðgerðir á landamærunum enn frekar nú þegar tilfelli eru farin að greinast í Evrópu.

„En auðvitað erum við bara alltaf að skoða þetta í ljósi þeirra upplýsinga sem við erum að fá og hvernig verði best að standa að þessu og sérstaklega í ljósi þess ef þetta er nú eitthvað smitnæmt og sleppur undan bólusetningu,“ segir Þórólfur og bendir á að ef svo sé þurfi að hugsa vel um hvernig við ætlum að haga okkur á landamærunum.

„Þetta er allavega ekki á leiðinni upp“

Töluvert færri greindust með kórónuveiruna innanlands í gær en undanfarna daga, samtals 77. 

„Þetta eru náttúrulega miklu lægri tölur en við höfum séð undanfarið og auðvitað er það ánægjulegt út af fyrir sig en það er nú oft þannig um helgar að við sjáum lægri tölur þó svo þær séu kannski ekki svona lágar,“ segir Þórólfur en bendir á smittölur haldist í hendur við fjölda sýna og hann viti ekki nákvæmlega hversu mörg sýni voru tekin í gær.

„En þetta er allavega ekki á leiðinni upp á við sem er bara fínt og ég bind vonir við það að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til séu að skila þessu meðal annars,“ segir Þórólfur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert