Apótek voru rekin í afar fallegu húsi við Laugaveg 16 í tæpa heila öld; fyrst Laugavegsapótek og síðar Lyfja. Í húsinu má nú finna annars vegar konseptbúðina Andrá og hins vegar nýja íslenska tískuvöruverslun þar sem finna má hágæða hönnun eftir þrjá fatahönnuði. Ýr Þrastardóttir, Halldóra Sif Guðlaugsdóttir og Sævar Markús Óskarsson opnuðu um síðustu helgi vinnustofu og verslun í þessu gamla apóteki og lá því beinast við að nefna verslunina Apotek Atelier. Ýr, Halldóra Sif og Sævar Markús eru mætt í búðina snemma morguns til að leiða blaðamann í allan sannleikan um hönnun þeirra og hugmyndir.
Ýr hefur orðið fyrst, en hún hefur starfað sem fatahönnuður í áratug. Eftir útskrift úr Listaháskólanum gekk hún til liðs við aðra hönnuði hjá Kiosk en er nú í kvikmyndaskólanum, ásamt því að stofna og reka Apotek Atelier. Ýr hannar undir merkinu Another Creation og er hún helst þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í sníðagerð, en hún vinnur mikið jakka og kápur í bútasaum með leður, silki og ull. Í dag hannar hún líka afar fallega síða silkikjóla.
„Ég hanna aðeins einn af hverjum kjól í einu því þetta er rosalega dýrt ferli. Ég hef brennt mig á því að sauma í mörgum stærðum og sitja svo uppi með kjóla. Um leið og ég sel kjól, bý ég til annan. Annars hef ég verið þekktust fyrir jakka og jakkasnið. Ég geri kápur og leðurjakka sem hægt er að breyta með því að taka til dæmis ermar eða kraga af. Ég hef verið að vinna með Heiðari feldskera sem hefur gert fyrir mig feldi sem fylgihluti fyrir mig,“ segir hún og segir að sér finnist gaman að geta sameinað vinnustofu og verslun.
Sævar Markús hannar undir eigin nafni en sérstaða hans eru sérstök mynstur á klassískum sniðum á skyrtum, kjólum og klútum. Hann vann mikið í tískuheiminum í París en ákvað að snúa heim til Íslands. Hann segist gjarnan leita í fortíðina í sinni hönnun.
„Ég vinn oft með fortíðina, listasögu, fornmuni og ýmislegt fleira þegar ég vinn mynstur, hvort sem það er bein vísun í ákveðin listamann sem ég vinn línu út frá og tileinka, eða þá að vinna út frá öðrum hlutum. Það er mjög misjafnt vinnuferli og innblásturinn kemur víða og getur verið langt og flókið ferli. Einnig vinn ég ávallt með vönduð efni og klassískan klæðskurð til dæmis,“ segir Sævar Markús.
„Ásamt fatnaði er ég að vinna að öðrum verkefnum eins og skartgripum og sérgerðum munum fyrir heimili og er byrjaður að þróa ilmkerti og reykelsi í samstarfi við tvo aðila erlendis sem hafa sérhæft sig í ilmvatns- og kertagerð, og er ég þar meðal annars að vinna með áhrif frá Hildagard von Bingen í því verkefni,“ segir hann.
Halldóra Sif lærði fatahönnun í LHÍ og vann síðan fyrir íslenska fatahönnuði hér heima. Hún fór síðan til London þar sem hún vann hjá Alexander McQueen í átta mánuði.
„Ég vissi alltaf að ég vildi stofna eitthvað sjálfstætt,“ segir hún en hún hannar bæði fylgihluti og föt undir merkinu Sif Benedicta.
„Ég byrjaði á að gera fylgihluti, handtöskur og plexítöskur og fór svo út í minni hluti eins og hálsmen og eyrnalokka. Svo var fyrsta fatalínan mín að koma út núna í Hönnunarmars, sem var reyndar í maí. Framleiðslan er að koma úr því núna fyrir jólin. Það eru skyrtur, kjólar og jakkaföt fyrir konur. Einnig er ég að gera húfur sem tengdamamma heklar,“ segir Halldóra Sif og segist hún nota skrautlega liti í sína hönnun.
„Ég eyði miklum tíma í að hanna virkilega góð snið sem ég held svo áfram að vinna með og stílisera ég þá fötin á mismunandi vegu.“
Undirbúningur að opnuninni hefur staðið yfir í tvo og hálfan mánuð.
„Við erum búin að vera sveitt dag og nótt að gera allt klárt hér og líka að gera framleiðsluna klára og koma með nýjar vörur,“ segir Halldóra Sif.
„Það er ekki allt komið en við ákváðum samt að opna, enda er að koma desember,“ segir Ýr og segir að viðtökurnar hafi verið afar góðar um síðustu helgi þegar þau opnuðu.
Þau eru öll spennt fyrir aðventunni.
„Ég elska Laugaveginn í desember, það er svo mikil stemning að fara niður í bæ með fjölskyldu eða vinum,“ segir Halldóra Sif og hin taka undir það.
„Nú er fólk líka afslappaðra en í desember í fyrra því flestir eru bólusettir. Maður sér líka að búðirnar hér í kring eru að vakna til lífsins,“ segir Ýr og segir alveg tilvalið fyrir fólk að kíkja inn í Apotek Atelier fyrir jólin.
„Við ætlum líka að selja hér franskar makkarónur í pakka og bjóða upp á gott kaffi! Og íslenska hönnun í jólapakkann!“
Ítarlegt viðtal er við fatahönnuðina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.