Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, fagnar því að loftslagsmál séu „komin í öndvegi“ í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hann setur spurningamerki við uppfærðrar fyrirætlanir um hálendisþjóðgarð og nýjan titil ráðuneytis umhverfismála.
„Þarna er sett markmið sem er framsækið 55%,“ segir Tryggvi og vísar þar til markmiðs ríkisstjórnarinnar um að draga saman beina ábyrgð losun Íslands um 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 2005. Tryggvi vonast til þess að þetta markmið verði lögfest.
Á síðasta kjörtímabili fór umfangsmikil undirbúningsvinna fram vegna áforma um hálendisþjóðgarð sem var þá í stjórnarsáttmálanum. Í þeim sáttmála sem var kynntur í dag virðist kveðið við nýjan tón og dregið úr þeim stórtæku fyrirætlunum sem voru uppi á síðasta kjörtímabili.
„Náttúruvernd og loftslagsvernd verða að haldast í hendur. Við verðum bæði að vernda náttúruna og vinna í loftslagsmálum. Það hefur verið í forgrunni á síðasta kjörtímabili að efla friðun hálendisins. Það var mjög mikið og stórt markmið og við vorum vongóð um að það myndi nást á kjörtímabilinu. Hér er dregið í land og við vitum ekki hvað felst í þessu,“ segir Tryggvi
„Við óttumst að hérna sé mjög mikið gefið eftir fyrir þeim sjónarmiðum sem voru a móti þessum hálendisþjóðgarði. Að okkar mati þá er mjög almenn samstaða um að það verði að vernda hálendisins. Að okkar mati er engin leið betri en þjóðgarður.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi umhverfis- og auðlindaráðherra er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar en hann mun gegna hlutverki félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra í nýrri ríkisstjórn. Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við sæti hans í umhverfisráðuneytinu sem ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála.
Tryggvi segir dæmi um að umhverfis og orkumálin séu sett undir sama málaflokk. „Í íslensku samfélagi vitum við að það eru mikil hagsmunaöfl sem vilja virkja bæði sveitarfélög og ýmis öflug fyrirtæki. Við náttúrulega óttumst það þegar þetta er komið á einn stað að það er meira jafnvægi í stjórnsýlunni ef það er einn ráðherra með það meginhlutverk að passa náttúruna.“
Hann segir það mikla kúnst fyrir nýjan ráðherra að annast uppbygginu orku og verndun náttúru: „Hann er svolítið með tvo hatta á höfðinu. Við vonum að ráðherra beri gæfu til þess að finna það jafnvægi. Við vitum að það eru sterk hagsmunaöfl í landinu og sterkir aðilar sem eru að koma inn á orkumarkaðinn með mikið fjármagn og við óttumst það“.