„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn og ánægð með að það hafi að að nokkru leyti verið hugað að framtíð fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskeldi,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.
Þar verður sett á fót nefnd sem mun fjalla um framtíð sjávarútvegsins og m.a. fjalla um hvernig hægt sé að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.
Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra tekur við sjávarútvegsmálunum í matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Spurð hvort hún sjái breytingar í sjónmáli, til dæmis á fiskveiðistjórnunarkefinu, segir Heiðrún:
„Í aðdraganda kosninga töluðu allir flokkarnir þrír um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hafi borið góðan ávöxt og í samanburði við aðrar þjóðir værum við með eitt besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Að því leytinu til finnst mér minna máli skipta hvaða ráðherra skipast í embættið, ef ríkisstjórnin er einhuga um þessa afstöðu, enda felst í henni heilbrigð skynsemi,“ segir Heiðrún.
Hún óttast þó að enn verði beðið með að skapa heildstæða framtíðarsýn fyrir sjávarútveginn með skipun nefndar, sem fær það verkefni að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.
„Áherslan virðist vera á að auka samkeppnishæfni og leita leiða til að ná frekari árangri með fiskveiðistjórnunarkerfið,“ segir hún. Að því leytinu til sé sleginn jákvæður og uppbyggilegur tónn í stjórnarsáttmálanum.
„Ég hins vegar sé að þarna er kveðið á um að það eigi að skipa nefnd. Nefndarskipanir eru orðnar vel þekkt stef í stjórnmálum þegar kemur að sjávarútvegi, þær hafa verið æði margar í gegnum árin en umfangið á vinnu þessarar nefndar sem er boðuð er verulegt,“ segir hún OG á meðan slík vinna sé í gangi þá verði lítið um skýra stefnumörkun heldur beðið niðurstöðu hlutaðeigandi nefndar og aðeins þá verði hafist handa við að vinna úr niðurstöðum.
„Ég óttast þess vegna að enn verði beðið með að skapa heildstæða framtíðarsýn fyrir stóra útflutningsatvinnugrein okkar íslendinga og mikilvæga stoð í efnahagslegri velsæld okkar,“ segir hún að lokum.