Íshellan sigið um næstum þrjá metra

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011.
Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Íshellan yfir Grímsvötnum hefur sigið um tæpa 2,9 metra. Engin breyting hefur verið á rafleiðni í Gígjukvísl en örlítil hækkun hefur verið í ánni.

Ekkert jökulhlaup er hafið en vel er fylgst með gangi mála, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Vísindamenn frá Háskóla Íslands fóru í vettvangsferð í gær til að berja ís af möstrum sem eru á svæðinu til að koma í veg fyrir að GPS-stöðvar detti út þannig að öll gögn berist örugglega í hús.

Staðan í Grímsvötnum verður tekin fyrir á samráðsfundum hjá Veðurstofunni í dag en enginn fundur er fyrirhugaður hjá vísindaráði fyrr en eftir helgi.

Spurð út í skjálfta upp á 2,7 sem mældist í nágrenni Eiríksjökuls klukkan tvö í nótt segir Lovísa ekkert óeðlilegt þar á ferð og bætir við að sex skjálftar hafi verið á svæðinu í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert