Mikill texti en lítið efni í stjórnarsáttmálanum

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segist hlakka til komandi kjörtímabils í stjórnarandstöðu og segir fjör nú vera að færast í leikinn. Hann segir þó enn margt sem eigi eftir að skýrast betur í stjórnarsáttmálanum.

„Fljótt á litið er minna í þessari tilfærslu verkefna, þegar grannt er skoða, en nafnabreytingarnar gefa til kynna. Það á auðvitað kannski eftir að skýrast betur á næstu dögum en það virðist erfitt að finna upplýsingar á rituðu orði um það nákvæmlega hvernig verkefnaskiptingin verður. Það hlýtur að koma í ljós á næstu dögum“.

Skautað framhjá Sundabraut og hálendisþjóðgarði

Að mati Bergþórs er sáttmálinn þess vegna mikill texti en lítið innihald. „Það sem kom mest á óvart var hversu miklar endurtekningar úr fyrri hluta skjalsins eru í verkefnalistanum undir lok hans. Þar er mjög mikið vísað til þess að áfram skuli gera hitt og þetta.“

Bergþór segir skautað framhjá mörgum mikilvægum innviðamálum eins og nefnir sem dæmi framtíð Sundabrautar. „Þetta kemur sömuleiðis svolítið á óvart að það sé ekki farið dýpra í mál eins og hálendisþjóðgarðinn sem var til mikilla vandræða hjá ríkisstjórnarflokkunum síðasta kjörtímabil.“

Ekki skýr þrátt fyrir góðan tíma til undirbúnings

Bergþór segir líka enn uppi vafi um hvernig verkefnaskiptingin verði í útlendingamálum og undir hvaða ráðuneyti þau muni heyra.

„Ég sé að þarna er ennþá lögð áhersla á það að samræma móttöku burtséð frá því með hvaða hætti flóttamenn koma til landsins og ýmislegt þess háttar,“ segir Bergþór sem vildi fá meiri dýpt í en kemur fram í sáttmálanum „sem tók samt tvo mánuði að skrifa“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert