Sigurður Ingi Jóhannsson, sem verður ráðherra í nýju innviðaráðuneyti, greindi frá því í samtali við RÚV, að mikilvægt hafi verið að stokka upp ráðuneytin frá því sem var á síðasta kjörtímabili.
Hann sagði kerfið bæði íhaldssamt og að einhverju leyti staðnað á sama tíma og þjóðfélagið sé á fullri ferð. Tæknibreytingar hafi verið miklar, meðal annars vegna stafrænnar tækni, ásamt því sem loftslagsmálin séu meira áberandi. Þessi mál snerti öll ráðuneytin.
„Okkur fannst mikilvægt að nota tækifærið og horfa inn í framtíðina og stokka ráðuneytin upp til þess að svara því kalli og um leið gefa okkur sterkara færi á að koma þessum stjórnarsáttmála í framkvæmd," sagði Sigurður.