Gert er ráð fyrir að um tvö þúsund nýjar íbúðir geti bæst við í Hlíðarhverfi, Háteigshverfi og við Öskjuhlíð á næsta áratug. Stærsti hluti þessarar fjölgunar verður á þegar skilgreindum þróunarsvæðum og byggir það meðal annars talsvert á verkefninu um að setja Miklubraut í stokk og uppbyggingu á Hlíðarenda. Í nýjum vinnutillögum að hverfisskipulagi er gert ráð fyrir tengingu frá Veðurstofureit yfir Kringlumýrarbraut og nýju torgi í Holtunum.
Samkvæmt nýju vinnutillögum, sem kynntar voru nýlega fyrir þessi þrjú hverfi, má gera ráð fyrir að fjölgun íbúða verði enn frekari en að ofan er nefnt ef fasteignaeigendur nýta sér heimildir um aukaíbúðir með breytingum núverandi eiga og ef húsfélög ákveða að setja lyftur og byggja ofan á núverandi fjölbýlishús sem eru lyftulaus.
Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að fjölmargt megi finna í tillögunum að hverfisskipulaginu sem miði meðal annars að grænum áherslum, eins og að festa í sessi leiksvæði og gera hverfisgarða. Þá séu einnig hugmyndir um hundagarð á Klambratúni.
Spurður um stærstu verkefnin þegar kemur að uppbyggingu og breytingum fyrir hverfin á komandi árum segir hann að það séu helst verkefni sem falla ekki beint undir hverfisskipulagið. Það séu verkefni með umtalsverða uppbyggingu þar sem gerð verði sérstök deiliskipulög. Þetta séu meðal annars uppbyggingaráform á Heklureit, í Skipholti, við Skógarhlíð, á Veðurstofureit og við Öskjuhlíð. Segir Ævar að þegar horft sé til þessara verkefna og þess sem kemur fram í hverfisskipulaginu sé jafnan verið að miða við framkvæmdir sem kæmu til framkvæmda innan næstu 10 ára.
Hann segir að rétt hafi þótt að kynna þessi verkefni með hverfisskipulaginu svo íbúar geti fengið heildstæða sýn á þróun mála í sínu nærumhverfi. Þá segir Ævar að ákveðið yfirmarkmið með hverfisskipulaginu sé að reyna að sameina hverfin betur með betri aðgengi fyrir gangandi og hjólandi milli hverfanna, en miklar umferðaræðar fara um hverfin eins og Miklabraut.
Í raun má segja að stóru deiliskipulagsverkefnin séu að mestu við kanta hverfanna, en tvö þeirra eru mjög gróin og ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum innan þeirra sjálfra. Til viðbótar er svo horft til stærsta verkefnisins sem er Miklubrautarstokkurinn, en hann er hluti af samgöngusáttmála Reykjavíkur og ríkisins og tengist um leið áformum um uppbyggingu borgarlínu. Þar sé hugmyndin að koma megninu af umferð um Miklubraut í stokk og gera borgargötu ofanjarðar og þannig ná betri tengingu milli hverfanna auk þess að verða tenging frá Kringlusvæðinu niður í miðbæ.
Samkvæmt frummati fyrir framkvæmdina gæti þessi framkvæmd opnað á byggingu íbúða og þjónustu- og verslunarhúsnæðis á 12 hekturum, eða 140 þúsund fermetra af íbúðarhúsnæði og 66 þúsund fermetra af þjónustu- og verslunarhúsnæði. Stærsti hluti þess yrði innan umræddra hverfa, líkt og sjá má á meðfylgjandi skýringarmyndum.
Ævar segir að hugmyndir fyrir Skógarhlíð muni að miklu leyti haldast í hendur við Miklubrautarstokkinn og þær breytingar sem muni fylgja. Þar sé þó horft til 3-4 hæða byggðar, með þjónustu og verslun á neðri hæðum og íbúðum á efri hæðum. Einnig sé horft til þess að þarna gæti verið góð staðsetning fyrir stórmarkað á jarðhæð. Samkvæmt hverfisskipulaginu er jafnframt gert ráð fyrir að þar verði borgargata.
Í Skipholtinu hafi verslun þróast nokkuð sjálf, en borgin horfi nú til þess að gera götuna að borgargötu. „Þá væru settir hjóla- og göngustígar og gatan tekin í gegn, eins og gert var með Hverfisgötuna,“ segir Ævar.
Á gatnamótum Einholts og Stórholts, á móti gamla Handiðnaðarskólanum, eru svo að sögn Ævars hugmyndir um að koma upp torgi sem ber vinnuheitið Holtatorg. Í dag eru þar bílastæði sem hann segir jafnan notuð til langtíma. Þá sé Seðlabankinn með geymsluhúsnæði þar sem hann vilji losna við. Segir Ævar að þar væri hægt að koma upp torgi sem ætti að vera sólríkt og skjólgott og gæti því passað vel fyrir rekstur sem sé þar fyrir í nágrenninu, eins og gistingu og veitingastaði.
Á Veðurstofuhæð er gert ráð fyrir um 200-250 íbúðum samkvæmt aðalskipulagi að sögn Ævars. Veðurstofan verður þar áfram, en hún hefur þegar flutt hluta starfsemi sinnar í húsnæðið þar sem Landsnet var áður. Segir Ævar að sá hluti Veðurstofuhæðarinnar sem sé næst Kringlunni sé sá hluti sem horft sé til með uppbyggingu. Segir hann að horft væri til þess að sú byggð væri „bíllítil“. Að hans sögn styttist hratt í að sérstakt deiliskipulag fyrir Veðurstofureitinn komi fram.
Í hverfisskipulaginu er sett fram hugmynd um vistlok yfir Kringlumýrarbraut sem myndi tengja Veðurstofuhæðina við Leitin. Segir Ævar að borgin hafi verið að kynna þessar hugmyndir fyrir Vegagerðinni, en hún er umsjónaraðili Kringlumýrarbrautar. Eins og myndin sýnir er þar ekki um að ræða einfalda brú, heldur er hugmyndin svipuð þeirri sem hefur verið í tengslum við tengingu milli Smáralindarinnar og Lindahverfis í Kópavogi.
Ævar segir að hugmyndin komi jafnframt frá Noregi þar sem víða hafi þessi lausn verið notuð yfir stórar umferðaræðar þannig að dýr komist óhindrað yfir eða til að tengja vinsæl útivistarsvæði innan borga. Segir hann að svipaðar hugmyndir hafi einnig verið skoðaðar fyrir Arnarnesveg sem stefnt sé að því að leggja yfir Vatnsendahæð og að Breiðholtsbraut.
Segir Ævar að ekki sé um jafn mikla framkvæmd að ræða og þegar bílaumferð fari yfir eða þegar byggja eigi hús ofan á. Þetta geti þó dregið mikið úr hávaða og mengun fyrir nærumhverfið og ekki þurfi einu sinni að loka alveg götunum. „Þetta er sett fram sem svar við óskum íbúa um að tengja betur á milli hverfa og koma á öruggum samgöngum og draga úr neikvæðum áhrifum stórumferðaæða,“ segir hann.
Í Hlíðar-, Háteigs og Öskjuhlíðarhverfi búa í dag um 11.600 manns, en eins og fyrr segir er horft til að fjölga á næstu 20 árum um tvö þúsund íbúðir. Ævar bendir á að til viðbótar við það bjóði hverfisskipulagið einnig upp á talsverða fjölgun íbúða með heimildum fyrir núverandi fasteignaeigendur til viðbygginga og breytinga á eignum sínum. Með því verði tímafrekar grenndarkynningar að mestu óþarfar og umsóknar- og afgreiðslukerfið einfaldara.
Hægt er að kynna sér hverfisskipulagið á vefsíðu Reykjavíkurborgar.