Eitt af verkefnum nýrrar ríkisstjórnar verður að gera úttekt á starfsemi Seðlabanka Íslands til að leggja mat á hvernig tekist hefur til við að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Þá verður litið til reynslunnar af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili og hvernig skipulag, verkaskipting og valdsvið nýrrar stofnunar er.
Þetta er meðal þess sem sett er niður á verkefnalista undir málaflokki efnahags og ríkisfjármála í nýjum stjórnarsáttmála. Þar kemur jafnframt fram að forgangsmál ríkisstjórnarinnar verði að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu og að reynt verði að stuðla að umhverfi lágra vaxta og hóflegrar verðbólgu.
Ríkisstjórnin ætlar að efla almannaþjónustu, en á sama tíma lækka skatta í samræmi við þróun ríkisfjármála. Er sérstaklega tekið fram að skattalækkanir verði með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Verði þar sérstaklega horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Fjármögnun aukinna verkefna á að nást með aukinni verðmætasköpun í samfélaginu og vexti hagkerfisins. Meðal annars á að ýta undir vaxtagetuna með öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun.