Í ríkisstjórnarsáttmálanum sem undirritaður var á Kjarvalsstöðum í dag kemur meðal annars fram að ríkisstjórnin muni ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Er þetta nýbreytni frá fyrri sáttmála þar sem ekkert ákvæði í þessa veru var að finna.
Þetta er eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnin setur niður á verkefnalista sínum undir loftlagsmál, en þar kemur meðal annars fram að sett verði sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun kolefnis á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030 miðað við árið 2005.
Meðal annars á að gera Ísland að lágkolefnishagkerfi og ná kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Segir jafnframt að sett verði fram þingsályktun um orkuskipti og útfösun jarðefnaeldsneytis og að Ísland verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.
Efla á rannsóknir og þekkingu á sviði grænna lausna og segir í sáttmálanum að endurskilgreina þurfi Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og veita viðbótarfjármagni inn í Tækniþróunarsjóð fyrir grænar lausnir.
Þá á að styrkja stjórnsýslu loftlagsmála og taka hlutverk loftlagsráðs til endurskoðunar með aukinni áherslu á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum