„Þetta leggst bara ágætlega í mig, þingið kýs á miðvikudaginn þannig þetta gengur nú ekki í gegn fyrr en þá en ég er ósköp þakklátur fyrir það að vera tilnefndur af hálfu míns flokks,“ segir Birgir Ármannsson í samtali við mbl.is en fyrr í dag var greint frá því að Birgir verði tilnefndur forseti Alþingis.
Birgir var varaforseti þingsins á árunum 2003-2007 og sat því í forsætisnefnd og tók virkan þátt í fundarstjórn á þeim árum. „Síðan var ég varaforseti í stuttu millibilsástandi veturinn 2016-2017,“ segir Birgir en hann varð í kjölfar kosninganna 2017 þingflokksformaður og hefur verið það síðan.
Spurður hvort hann sé ánægður með hinn nýbakaða ríkisstjórnarsáttmála jánkar Birgir því. „Já já, ég er sáttur við þessa niðurstöðu í stjórnarmyndunarviðræðunum og hlakka til komandi kjörtímabils. Þetta er auðvitað plagg sem tekur á mjög mörgum mismunandi þáttum og ég held að í því sé ágætis jafnvægi milli sjónarmiða ólíkra flokka. Ég held að það hafi tekist vel að finna slíkt jafnvægi.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í dag að samkomulag væri milli stjórnarflokkanna þriggja um að Sjálfstæðisflokkurinn tilnefndi forseta Alþingis en þingið kýs um það á miðvikudaginn. Bjarni sagði í kjölfarið að Birgir nyti mikils stuðnings þingflokksins og virðingar og trausts annarra flokka á Alþingi. Hann tryði því ekki að nokkuð kæmi í veg fyrir að Birgir yrði kosinn.