Stjórnarsáttmálinn kalli á aukið fjármagn

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er margt áhugavert að finna í stjórnarsáttmálanum að mati Loga Einarssonar, þingmanns og formanns Samfylkingarinnar. Hann bendir á að margt þar kalli á aukið fjármagn og þá frávik frá fjármáláætlun. Það komi því til með að vera fyrsta þolraunin. 

„Eitt eru falleg orð og annað eru efndir.“ 

Logi gagnrýnir að stærstu spurningu kosningabaráttunnar sé enn ósvarað og á þá við hvernig taka skuli á heilbrigðiskerfinu. „Svarið er ekki að finna í stjórnarsáttmálanum.“

Talsverð uppstokkun ráðuneyta einkennir hið nýja ríkisstjórnarsamstarf en Loga þykir sérstakt að tekin hafi verið ákvörðun um að slíta menntamál í sundur og koma þeim fyrir á þremur ólíkum stöðum eftir skólastigum. 

Verkstjórn fyrir aðra flokka

„Réttlætingin sem Vinstri græn báru fyrir sig fyrir fjórum árum til að sitja í þessari ríkisstjórn er að einhverju leyti orðin minni,“ segir Logi og vísar þá til þess að á sínum tíma hafi flokkurinn lagt áherslu á að vera í varðstöðu á sviði heilbrigðis og umhverfismála, sem nú heyra ekki undir þá lengur. 

„Þau taka sér nú stöðu í ráðuneytum landbúnaðar og sjávarútveg þar sem þau eru bara sammála Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar kallaði hlutverk Vinstri grænna í nýrri ríkisstjórn „eitt mest lýsandi dæmi um uppgjöf flokks innan ríkisstjórnar.“

Hún telur Vinstri græn, með þessu, taka á sig verkstjórn fyrir aðra flokka. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert