Treystir öllum sínum ráðherrum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Kjarvalsstöðum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Kjarvalsstöðum í dag. Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist treysta öllum ráðherrum í sinni ríkisstjórn þó hún neiti því ekki að margir innan flokkanna hefðu viljað færri breytingar. Talsverð uppstokkun varð á ráðuneytum í ríkisstjórninni en Katrín segist hafa verið helsti talsmaður þess að þeim yrði breytt fyrir komandi kjörtímabil.

„Ég ætla ekkert að leyna því að margir í öllum þessum flokkum hefðu viljað halda óbreyttri skipan mála. Það fann maður fyrir bæði í hinum flokkunum og hjá mér að fólk sagði „Bíddu, þetta hefur nú bara gengið ágætlega og því þá að vera að breyta“,“ segir Katrín í samtali við mbl.is í dag.

Ráðherrar VG í matvæli og félagsmál

Helstu breytingar fyrir ráðherra Vinstri grænna eru þær að Svandís Svavarsdóttir fer úr ráðuneyti heilbrigðismála og í ráðuneyti mat­væla-, sjáv­ar­út­vegs-, og land­búnaðar á meðan Guðmundur Ingi Guðbrandsson fer úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og í ráðuneyti fé­lags- og vinnu­mála.

Að sögn Katrínar er það mikilvægt að fólk fái ný verkefni á nýju kjörtímabili. „Ég er mjög ánægð með þau ráðuneyti sem falla í skaut VG. Þar eru ofboðslega spennandi verkefni hvað varðar matvælaframleiðslu og einnmitt samþættingu matvælaframleiðslu og loftslagsmála. Og svo auðvitað félagsmálin.“

Breytingar á almannatryggingakerfum á dagskrá

Í sáttmálanum er fjallað um breytingar á almannatryggingakerfi eldri borgara en Katrín segir VG stórhuga í félags- og vinnumarkaðsmálum: 

„Við erum með metnað til þess að breyta almannatryggingakerfinu hvað varðar örorkulífeyrisþega og gera það gagnsærra og réttlátara og bæta sérstaklega kjör þeirra sem versta standa þar og hvetja þá til atvinnuþáttöku þeirra sem það geta en þvinga hins vegar engan í það. Þannig að það eru töluvert metnaðarfull markmið sem við viljum sjá hrint í framkvæmd.“

Umhverfismál og orkumál í eina sæng

Guðlaugur Þór Þórðarson verður ráðherra um­hverf­is-, lofts­lags- og orku­mála og tekur því við umhverfismálunum af Guðmundi Inga úr röðum VG. Ráðuneytið virðist, að nafninu til, því vera einhverskonar áherslubreyting frá síðasta kjörtímabili en Katrín segir þetta bara spennandi að leiða þessa tvo málaflokka saman:

Við erum að reyna að ná fram þeirri hugsun að þetta geti farið saman en að sjálfsögðu með virðingu fyrir náttúrunni og með því að reyna að skapa sátt á mili uppbyggingar annars vegar og umhverfis og náttúruverndar hins vegar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert