„Það er helst þróun nýrrar tækni sem nú ógnar Norður-Ameríku, tækni sem var ekki til fyrir um 20-30 árum,“ segir dr. James Ferguson, prófessor í stjórnmálafræði við Manitoba-háskóla, en hann flutti á miðvikudaginn erindi á vegum Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar HÍ um varnir og öryggi á norðurslóðum.
Ferguson er frá Kanada, en hann er sérfræðingur um varnir Norður-Ameríkuríkjanna, og þá sérstaklega NORAD-loftvarnarkerfisins, sem Bandaríkin og Kanada standa sameiginlega að. Hann segir að einkum Rússar, en einnig Kínverjar, séu nú að tileinka sér hina nýju tækni, sem felur meðal annars í sér langdrægar stýriflaugar, ofurhljóðfráar eldflaugar og jafnvel kjarnaknúnar stýriflaugar, sem myndu gefa þeim mjög langt drægi, en um leið skapist þörf á að endurhugsa varnir Norður-Ameríku og fælingarmáttinn af þeim.
Ferguson segir að ógnin af hinni nýju tækni sé nú þegar orðin yfirþyrmandi fyrir varnir vestrænna ríkja. „Við höfum ekki fjárfest í vörnum síðan kalda stríðinu lauk, því við höfum ekki þurft að fjárfesta. Varnirnar yrðu brotnar á bak aftur. Við eigum við vanda að stríða í að finna ógnirnar með ratsjá, ratsjárlínurnar eru úreltar og úr sér gengnar.“
Ferguson bætir við að það hafi fyrst og fremst verið ógn frá langdrægum sprengjuflugvélum gagnvart Norður-Ameríku, sem myndu þá fljúga beint yfir norðurslóðir. Núna nái svæðið sem þurfi að vakta hins vegar niður Kyrrahafsströndina og svo norðvesturleiðina um Atlantshafið. „Og þessar leiðir, og þá sérstaklega svæðið sem Grænland og Ísland eru á, hafa verið utan vébanda NORAD, og það þarf að breytast.“
Aðspurður hver staðan sé nú með tilliti til Íslands segir Ferguson að innan Atlantshafsbandalagsins og þá um leið í Kanada og Bandaríkjunum sé GIUK-hliðið svonefnda ennþá mikilvægt, en að mikilvægi þess hafi breyst frá tímum kalda stríðsins. „Þá skipti það máli til að verja liðsflutninga á Atlantshafi frá Ameríku til Evrópu ef til stríðs kæmi, sem var hluti af fælingarmætti bandalagsins, en það hefur breyst.“ Ferguson segir að NORAD þurfi að breytast með og víkka sjóndeildarhringinn.
Ferguson segir að hann telji að vestanhafs þurfi að endurskoða þá afstöðu manna að Grænland og Ísland tilheyri Evrópu þegar komi að varnarmálum. Vandinn við það sé sá að nú sé hægt að skjóta vopnum að Norður-Ameríku sem fari framhjá austurströnd Grænlands, án þess að hægt sé að fylgjast með þeim og koma í veg fyrir að þeim verði beitt.
Þegar komi að Íslandi þýði hin nýja tækni að ekki sé lengur nóg að fylgjast með sprengjuvélum sem beri stýriflaugar, heldur sé nú þörf á að fylgjast með stýriflaugunum sjálfum, sem séu mun minni. „Og það kallar á nýjar ráðstafanir fyrir Ísland, á sama tíma og það kallar á að NORAD og Norður-Ameríkuríkin horfi meira til austurs á sama tíma og Grænland og Ísland ættu að horfa meira til vesturs í varnarmálum.“
Ferguson bendir á að bandarískar herstöðvar hafi verið í báðum löndum, en að mögulega gætu komið upp pólitísk vandamál við að hefja aftur á ný viðbúnað á borð við þann sem var í kalda stríðinu. „Það sem slær mig við Ísland er að þið eruð mjög lík Kanadamönnum. Þar er minnihluti, um 15-20%, sem andmælir öllu sem Bandaríkjamenn gera, bara af því að það eru þeir. Svo eru langflestir sem hafa blendnar tilfinningar, en svo eru þeir sem telja að náið samband sé landinu fyrir bestu í varnarmálum.“
Ferguson bætir við að stóra spurningin sé hvort það samband eigi að vera við Atlantshafsbandalagið eða Bandaríkin, og að bæði á Íslandi og í Kanada sé tilhneiging í opinberri umræðu að setja fram hluti sem snerti í raun tvíhliða varnarsamskipti ríkjanna við Bandaríkin sem mál Atlantshafsbandalagsins.
„Hinn punkturinn sem ég myndi leggja áherslu á, er að hvort sem ykkur líkar betur eða verr, þá er Ísland mjög mikilvægt geóstragetískt svæði,“ segir Ferguson. „Þið viljið kannski vera hlutlaus eða halda ykkur utan átaka, og í því svipar ykkur einnig til Kanadamanna. Því miður fáið þið ekki það val. Þið verðið alltaf skotmark út af staðsetningu ykkar. Þá vaknar spurningin, hvernig getið þið best tryggt öryggi ykkar, og ég tel svarið vera í nánara sambandi við Norður-Ameríku, sem stefnusmiðir á Íslandi ættu nú þegar að vera að hugleiða.“
Ferguson segir að markmiðið í Norður-Ameríku sé að tryggja fælingarmáttinn gagnvart aðallega Rússum, en einnig síðar meir Kínverjum. Til þess þurfi að ýta ógninni sem lengst frá ströndum álfunnar. „Fyrsta skrefið að því á margan hátt er að tryggja að á Íslandi séu ratsjárstöðvar og búnaður til að styðja við aðgerðir hersveita á norðurslóðum, ef til krísuástands kæmi,“ segir Ferguson.
Ferguson segir að með því megi bæði fæla Rússa áður en til slíkrar krísu kæmi, og einnig ýta sömu ógn eins langt norður í burtu frá Íslandi og mögulegt er. „Því ef þið hugsið ekki um mikilvægi Íslands og þá þörf, þá verður landið að víglínunni [ef til átaka kemur] og Rússar og Bandaríkjamenn munu berjast um ykkur.“