Áhersla á nýsköpun muni skila sér til baka

Við Háskóla Íslands. Málefni háskóla munu heyra undir nýja ráðuneytið.
Við Háskóla Íslands. Málefni háskóla munu heyra undir nýja ráðuneytið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin hefur staðið sig vel þegar kemur að nýsköpun í landinu og ber nýi stjórnarsáttmálinn merki um áframhaldandi velgengni í þeim málum, að mati Ragnheiðar H. Magnúsdóttur, formanni tækninefndar hjá vísinda- og tækniráði. Segir hún jákvætt að sjá mikla áherslu á stafrænar lausnir í sáttmálanum og að kveðið sé á um endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunarverkefna.

Stjórnarsáttmálinn sem var opinberaður um helgina hefur lagst misvel í landann og hafa margir farið gagnrýnum orðum um hann. Þykir einhverjum hann heldur innihaldslítill þrátt fyrir að telja rúmar 60 blaðsíður. Ekki eru þó allir á sama máli.

Ég skoðaði stjórnarsáttmálann aðallega út frá nýsköpun og tækni og það má segja að heilt yfir sé stjórnarsáttmálinn þannig að ég sé að ríkisstjórnin skilur mikilvægi þess að bregðast við tæknibreytingunum sem eru í gangi og mikilvægi þess að setja fjármuni í hvata til nýsköpunar,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Stafrænu málin á réttu róli

Hún telur meðal annars jákvætt að haldið verði áfram með verkefni er snúa að stafrænni umbreytingu hjá hinu opinbera og í heilbrigðisþjónustu en þar segir hún mikilvægt að við minnkum sóun og aukum framleiðni. 

Í sáttmálanum er kveðið á um að fjarheilbrigðisþjónusta verði sérstaklega efld og að stuðlað verði að nýsköpun og ýtt verði undir samstarf opinberra aðila á sviði tæknilausna.

Þarna þarf að setja alvöru áherslur. Í þessum kafla er líka talað um að skipuð verði fagleg stjórn yfir spítalann og ég vona svo innilega að a.m.k. einn aðili sem þekkir vel til tækni verði settur við þetta stjórnarborð,“ segir Ragnheiður.

Endurgreiðslur stóru málin

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður tækninefndar hjá Vísinda- og tækniráði.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður tækninefndar hjá Vísinda- og tækniráði. Ljósmynd/Saga Sig

Auk áframhaldandi áherslu á stafrænar lausnir, segir Ragnheiður ákvæði í sáttmálanum er kveða á um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunarverkefna skipta miklu máli.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir öll sprota- og nýsköpunarfyrirtækin hérna á Íslandi. Þetta hefur verið mikil lyftistöng og í raun og veru mun þetta skila sér í mikilli verðmætaaukningu til landsins vegna þess að nýsköpun er að búa til peninga sem sækir erlend verðmæti. Það er bara hið besta mál.“

Þá telur Ragnheiður einnig jákvætt að efla eigi samkeppnissjóð á sviði grunnrannsókna og tækniþróunar, og að halda eigi áfram þróun vísisjóða. Auk þess sem löggjöf um skattalega meðferð kauprétta og hlutabréf hjá nýsköpunarfyrirtækjum verður endurskoðuð.

Verður það  með því sjónarmiði að hægt verði að „keppa um starfsfólk, stjórnendur og ráðgjafa með því að bjóða hlutdeild í framtíðarávinningi með hagkvæmum hætti,“ að því er fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Jákvætt að háskólinn tilheyri nýja ráðuneytinu

Um helgina var einnig nýtt ráðuneyti kynnt til leiks, eða vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fyrrverandi dómsmálaráðherra mun stýra. Munu málefni háskóla heyra undir nýja ráðuneytið, ásamt öðru er viðkemur vísindum og rannsóknum.

Ekki eru allir á sama máli um þessa tilfærslu og telja margir óskynsamlegt að háskólinn heyri undir þetta ráðuneyti. Ragnheiður tekur þó ekki í sama streng.

„Við erum að setja alveg gríðarlega peninga í nýsköpun og rannsóknarstarf í háskólanum og til að það nýtist sem best til verðmætasköpunar verðum við að tengja miklu betur og vera með betri brú milli háskólastarfsins og atvinnulífsins. Að setja þetta saman í eitt ráðuneyti er geggjað og gefur okkur miklu betri heildarmynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert