Sóttvarnalæknir telur að það geti orðið mjög erfitt að koma í veg fyrir að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar berist hingað til lands. Óvissa ríkir um hversu smitandi afbrigðið er en fyrsta smitið greindist í Suður-Afríku og virðist útbreiðslan mest í sunnanverðri álfunni þó það hafi borist víðar.
„Þetta er meira að segja komið inn í Ástralíu sem er með mjög strangar reglur, miklu strangari reglur en við,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
Hann segir allar sóttvarnaaðgerðir miða að því að tefja og hemja útbreiðslu kórónuveirunnar. „Við getum aldrei vænst þess að þessar aðgerðir komi algjörlega í veg fyrir að þessi veira eða aðrar dreifi sér. Við erum að reyna að hafa hemil á henni.“
Mörg lönd hafa gripið til hertari aðgerða við landamærin í von um að hefta útbreiðslu afbrigðisins, þar á meðal Ísland. Nú verða allir ferðalangar sem dvalið hafa á hááhættusvæðum síðastliðnar tvær vikur gert að fara í PCR-próf við komuna til landsins og sæta fimm daga sóttkví, sem mun ljúka með öðru PCR-prófi.
Þórólfur segir að nú þurfi að bíða aðeins og fá frekari fregnir af rannsóknum á afbrigðinum áður en ákveðið verði að ráðast í einhverjar frekari ráðstafanir. Hann bendir enn fremur á að aðgerðir á landamærunum hér séu býsna strangar.
„Þrátt fyrir það vitum við að við erum að fá veiru framhjá þessu kerfi og inn í landið.“
Suður-Afrískur læknir, einn þeirra sem uppgötvaði nýja afbrigðið, sagði um helgina að einkenni smitaðra af því væru mild. Þórólfur sagði að við ættum auðvitað að vona að sú yrði raunin en á sama tíma vera viðbúin verri fregnum:
„Við vitum að það hefur verið aukning á spítalainnlögnum vegna Covid í Suður-Afríku. Við vitum ekki hvaða afbrigði af veirunni um er að ræða þar en við eigum eftir að fá betri fregnir.“