Tíðni sjálfsvíga samræmist fyrri árum

Sjálfsvíg fyrstu sex mánuði ársins 2021 voru 17 talsins, eða 4,6 á hverja 100.000 íbúa, að því er segir á vef Landlæknis. Er þar byggt á bráðabirgðatölum.

Tölurnar eru sagðar samræmast tölum fyrri ára. Meðalfjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði áranna 2016-2020 var 18 eða 5,1 á hverja 100.000 íbúa. Þá segir að ekki sé heldur mikil breyting sé litið til tíu ára meðaltals áranna 2011-2020.

Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er skráð vísvitandi sjálfsskaði.

Mikilvægt að segja frá líðan sinni

Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218.

Píeta-samtökin bjóða einnig uppá ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.  

Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert