1,1 milljarður aukalega í nýsköpun og rannsóknir

Nýsköpunarmál munu heyra undir ráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Nýsköpunarmál munu heyra undir ráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Framlög ríkisins vegna nýsköpunar og rannsókna eykst um 1,1 milljarð milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem kynnt var í dag. Fellur stærsti hluti hækkunarinnar undir nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar, en þar undir er endurgreiðsla vegna rannsóknarkostnaðar, fjárfesting í nýsköpun og endurgreiðslur vegna kvikmyndaverkefna.

Með nýjum ríkisstjórnarsáttmála var mikil áhersla lögð á nýsköpun og aukna tæknivæðingu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár eru þrjú verkefni sem standa upp úr þegar kemur að aukningu framlaga í þennan málaflokk.

Frekari aukning í endurgreiðslu vegna þróunar

Þannig er gert ráð fyrir að 619 milljónir fari í aukin framlög vegna endurgreiðslna til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna þessa málaflokks nam á síðasta ári 10,4 milljörðum og tvöfaldaðist milli ára.

500 milljónir í Kríu

Þá er heimild til að setja 500 milljónir í nýjan íslenskan hvatasjóð sem mun bera heitið Kría. Er sjóðnum ætlað að fjárfesta í vísisjóðum með það að markmiði að tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla.

Opnað var fyrir umsóknir í Kríu í október og lokað fyrir þær í byrjun nóvember. Sjóðurinn hefur enn ekki fjárfest í neinum fyrirtækjum.

500 milljónir aukalega í kvikmyndir

Fjárheimild vegna endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi er jafnframt aukin um 500 milljónir í frumvarpinu.                

Þessi þrjú verkefni falla öll undir nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar, en á móti hækkunum kemur um 424 milljóna aðhaldskrafa á málefnasviðið. Kemur það meðal annars niður á Tækniþróunarsjóði.

Varðandi rannsóknir og vísindi er meðal annars horft til þess að auka framlög til samkeppnissjóðanna Rannsóknarsjóðs og Innviðasjóðs um 167 milljónir. Þá eru 100 milljónir settar í tímabundið framlag vegna samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Aðhaldskrafa á málefnasviðið nema hins vegar 213 milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert