8,7 milljörðum minna í samgöngumál

Sigurður Ingi Jóhannsson við kynningu á ríkisstjórnarsáttmála á Kjarvalsstöðum um …
Sigurður Ingi Jóhannsson við kynningu á ríkisstjórnarsáttmála á Kjarvalsstöðum um helgina. Hann fer fyrir innviðaráðuneyti, en undir það heyra samgöngumál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarfjárheimild fyrir samgöngumál í nýjum fjárlögum nemur 49 milljörðum og lækkar um 8,7 milljarða á milli ára. Helgast þetta meðal annars af því að fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar er að hluta lokið og lækkar það fjárheimild til framkvæmda á vegakerfinu um 7,2 milljarða.

Áfram fara þó 28,3 milljarðar á næsta ári í framkvæmdir og viðhald á vegakerfinu.

Búið er að aðgreina sérstaklega framlagt ríkisins tengt samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu, en samkvæmt honum verður 2,2 milljörðum varið af fjárlögum þessa árs í málaflokkinn.

Meðal verkefna sem talin eru upp yfir helstu verkefni komandi árs er stórátak í vegaframkvæmdum í samræmi við fjárfestingarátak á Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi, Þverárfjallsvegi og Skagastrandarvegi. Samtals er gert ráð fyrir 1,7 milljörðum í þessi verkefni. Fara jafnframt 500 milljónir aukalega í fjárfestingarátak vegna viðhalds á vegum.

Fyrir utan fjárfestingarátakið eru stærstu framkvæmdirnar Fjarðarheiðargöng, Suðurlandsvegur milli Biskupstungnabrautar og Varmár, hringvegur um Kjalarnes, Vestfjarðarvegur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði.

Þá er horft til þess að fækka einbreiðum brúm á hringveginum, en það eru meðal annars brýr yfir Núpsvötn, Stóru Laxá á Skeiða og Hrunamannavegi og Skjálfandafljót hjá Fosshóli við Goðafoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert