Gæti haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér

Sigurður Örn Hilmarsson.
Sigurður Örn Hilmarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill höfuðverkur verður fyrir stjórnvöld að leysa úr þeirri stöðu er skapast ef Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn Mannréttindasáttmálanum vegna kosninga í Norðvesturkjördæmi, segir Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður tveggja frambjóðanda í kjördæminu.

Á fimmtudag staðfesti Alþingi kjörbréfin í Norðvesturkjördæmi þrátt fyrir að rannsókn og greinargerð undirbúningskjörbréfanefndar hefðu varpað ljósi á annmarka við meðferð kjörgagna í kjördæminu, í kjölfar síðustu alþingiskosninga.

Nú þegar hafa nokkrir viðrað þá hugmynd að vísa úrskurði Alþingis um staðfestingu kjörbréfanna, og þar með lögmæti kosninga í Norðvesturkjördæmi, til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar á meðal eru þeir Magnús D. Norðdahl frambjóðandi Pírata og Guðmundur Gunnarssonar fram­bjóðandi Viðreisn­ar en þeir hafa falið Sigurði Erni að gæta réttar síns.

Óheppileg tilhögun

Að sögn Sigurðar Arnar byggir þetta mál á tveimur atriðum. Annars vegar hvort Alþingi hafi komist að rangri niðurstöðu um lögmæti kosninga í Norðvesturkjördæmi í ljósi alvarlegra annmarka á vörslu og meðferð kjörgagna sem raktir voru í greinargerð undirbúningskjörbréfanefndar.

Hins vegar er það málsmeðferð Alþingis og geta þess til að leysa úr þessum málum. Vísar Sigurður Örn meðal annars til þess að þeir einstaklingar, frambjóðendur og kjósendur sem kærðu kosningarnar hafi ekki fengið aðgang að þeim gögnum er lágu til grundvallar Alþingis og greinargerð þessarar nefndar. Skiptir það verulegu máli.

„Þarna er Alþingi að skera úr um lögmæti eigin kosninga á grundvelli gagna sem enginn fær séð nema það sjálft. Sú tilhögun er mjög óheppileg og til þess fallin að draga úr trausti á afgreiðslu málsins og niðurstöðu þingsins.“

Næsta úrræði að leita til MDE

Ákvörðun Alþingis sem fól í sér staðfestingu kjörbréfa getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, segir Sigurður Örn og bætir við að þetta mál sé til þess fallið að skapa mikla óvissu meðal almennings gagnvart löggjafarvaldinu.

 „Mannréttindadómstólinn dæmir samkvæmt Mannréttindasáttmálanum sem Ísland er aðili að og íslensk stjórnvöld. Mannréttindadómstóll getur komist að þeirri niðurstöðu að það hafi átt sér stað brot gegn Mannréttindasáttmálanum og sú niðurstaða er ekki ráðgefandi. Hún sem slík ógildir þó ekki niðurstöðu alþingis en hefur engu að síður afleiðingar hér á landi.“

En er yfirhöfuð hægt að vísa úrskurði Alþingis til Mannréttindadómstólsins?

„Almenna reglan er sú að dómstólar hafa vald til að dæma í öllum málum nema þau séu sérstaklega undanskilin lögsögu þeirra samkvæmt lögum, venju eða samningi. Í 46. grein stjórnarskráarinnar segir að Alþingi sker sjálft úr um gildi kosninga og það orðalag bendir til þess að Alþingi hafi lokaorðið hér á landi. Þá er næsta úrræði, fyrir þá sem telja á sér brotið, að leita til Mannréttindadómstólsins,“ svarar Sigurður Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka