Hallinn verði 165 milljarðar á næsta ári

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlög næsta árs.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlög næsta árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekjur ríkissjóðs munu nema 955,4 milljörðum á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun. Áfram er þó gert ráð fyrir miklum halla ríkissjóðs, eða um 169 milljarða, en það er engu að síður bætt afkoma um 119 milljarða miðað við afkomuspá frá í fyrra.

Í kynningu sinni fór Bjarni yfir hvernig spá ráðuneytisins hefði breyst frá því í október í fyrra og benti á að á þeim tímapunkti hefði meðal annars ekki verið vitað fyrir víst hvort Íslendingar gætu fengið bóluefni á árinu 2021.

Kom fram að miðað við áætlunina á síðasta ári þá hafi landsframleiðsla orðið 40 milljörðum hærri árið 2020 og spáð væri 40 milljarða hærri landsframleiðslu á þessu ári. Þá væri gert ráð fyrir 110 milljarða hærri landsframleiðslu á næsta ári en spáð var í fyrra.

Gert er ráð fyrir að stuðningur hins opinbera vegna faraldursins verði um 50 milljarðar á næsta ári og verði þá samtals 260 milljarðar árin 2020-2022.

Sagði Bjarni að niðurstaðan væri mun hagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir. Benti hann á nokkrar sviðsmyndir sem hefðu verið settar fram í fyrra og að staðan núna væri umfram björtustu væntingar. „Erum að fara vel fram úr björtustu sviðsmynd,“ sagði hann um nýjustu spá ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert