Sig íshellunnar í Grímsvötnum heldur áfram, hægt og rólega, og er nú orðið sjö metrar frá því að Veðurstofa Íslands fór að fylgjast með stöðu mála. Íshellan sígur allt að hundrað metra í eðlilegu jökulhlaupi.
Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að nú mælist örlítil hækkun í rafleiðni við Gígjukvísl, en aukning í vatnshæð sé ekki mikil.
Ekki sé að sjá miklar breytingar á myndavélum né gas við Skeiðarárjökul. Hlaupórói mældist í Grímsvatnastöð í gærkvöldi sem orsakast af vatni sem flæðir undir jökulinn.
Í morgunsárið mældist einnig hlaupórói í annarri mælistöð nær Skeiðarárjökli. „Það sést ekki eins vel á mælum eins og í Grímsvatnastöð,“ útskýrir Bjarki.
Líkur hafa verið taldar á gosi úr eldstöðinni í kjölfar hlaups. Enn hafa engin merki sést um slíkt og skjálftavirkni hefur ekki mælst á svæðinu, sem búast mætti við ef til goss kæmi.