Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að framlög til að mæta auknum viðbúnaði heilbrigðiskerfisins vegna kórónuveirufaraldursins verði aukin um 4,4 milljarða króna.
Í fyrsta lagi verður 2,6 milljörðum varið til að styrkja getu Landspítalans (LSH) til að bregðast við heimsfaraldrinum. Opna á sex ný hágæslurými sem draga eiga úr álagi á gjörgæslurými LSH, 30 ný endurhæfingarrými verða opnuð á Landakoti og komið verður á fót sérstakri farsóttardeild á LSH í Fossvogi sem draga á úr álagi á öðrum deildum spítalans. Þessar aðgerðir miða jafnframt að því að draga úr álagi og styrkja getu spítalans til að kljást við farsóttir og önnur verkefni til lengri tíma litið.
Í öðru lagi verður 1,4. milljörðum varið til kaupa á bóluefnum við kórónuveirunni og í þriðja lagi verður 400 m.kr. veitt tímabundið í eitt ár til geðheilbrigðismála.