„Þegar maður skoðar saman stjórnarsáttmálann og fjárlögin, sem er auðvitað nauðsynlegt, þá finnst manni í rauninni ekki endurspeglast í fjárlögunum sá mikli metnaður sem lýst er í stjórnarsáttmálanum. Til dæmis hvað varðar loftslagsmál, menntun og lífskjarasókn fyrir allan almenning,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar um fjárlagafrumvarp næsta árs.
Hann segir fjárlögin kjarklítil. Íslenskur fjárhagur standi á góðum grunni og skuldahlutfallið sé gott miðað við það sem búist var við. Það séu því vonbrigði að sóknarfærin og tækifærin séu ekki nýtt til að skapa enn betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.
„Ríkisstjórnin hefur enga afsökun fyrir því að ráðast ekki með meiri myndarskap að lykilmálum framtíðar. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um mennta- og loftslagsmálin. Það er líka áhugavert að fjárfesting virðist ekki vera að aukast árið 2022 og við náum meira að segja ekki að koma þeim fjárfestingum í gang sem þó er ætlað fé í, þannig það er vannýtt fjármagn þar.“
Þá segir Logi viðvarandi verkefni stjórnvalda ekki síður nauðsynleg. „Það er að ráðast gegn þeim inngróna ójöfnuði sem er hérna í samfélaginu. Lítil fámenn þjóð þolir mjög illa jafn mikla mismunun og þrífst.“
Það séu til að mynda mikil vonbrigði að ekki sé áformuð meiri sókn í húsnæðismálum heldur en í fyrra. Þá séu barnabætur nánast óbreyttar, þó það sé látið líta þannig út að þær hækki. Skerðingarmörkin séu vissulega aðeins hækkuð, en fé tekið af millitekjufólki í staðinn.
„Svo er mjög sorglegt að sjá að kjör öryrkja og þeirra sem eru á lægstu töxtunum, þau sýnist mér ennþá vera að dragast aftur úr launaþróun almennings. Gjáin er enn að breikka.“
Samhljómurinn á milli stjórnarsáttmálans og fjárlagafrumvarpsins sé því lítill. „Sami metnaður og birtist í stjórnarsáttmálanum, hann er eiginlega bara sleginn kaldur í fjárlögunum. Lykilatriðið er; orð eru eitt, efndir eru annað. Orðin birtast í stjórnarsáttmálanum, efndirnar koma í ljós í fjárlögunum. Þetta eru kjarklítil fjárlög.“
Logi segir að vissulega séu verkefni í fjárlögunum sem öll þjóðin hafi kallað eftir og allir stjórnmálaflokkar séu sammála um. Eins og til dæmis að ráðast þurfi í stórátak í heilbrigðismálum, en fjárframlög í þann málaflokk aukast um 16,3 milljarða á milli ára og er það mesta hækkun einstaka málaflokks á milli ára.
„Mér sýnist þó að þriðjungur til fjórðungur af því fé sem veitt er núna séu covid-peningar sem þurftu að koma inn, en síðan verður að koma í ljóst hvort þetta dugar til að halda sjó eða í þeim felast einhverjar framfarir og bætur á kerfinu. Mér sýnist til dæmis að ennþá séu hjúkrunarheimilin vanfjármögnuð þó það sé bætt þar í. Þannig það er ýmislegt sem þarf að skoða betur þar.“