Jón Sigurbjörnsson, leikari og óperusöngvari, andaðist á dvalarheimilinu Hrafnistu í gær, 30. nóvember, 99 ára að aldri.
Jón Sigurbjörnsson fæddist á Ölvaldsstöðum í Borgarfirði 1. nóvember 1922. Foreldrar hans voru Ingunn Kristín Einarsdóttir húsfreyja, f. 28.6. 1896, d. 19.9. 1986 og Sigurbjörn Halldórsson verkamaður, f. 19.10. 1873, d. 2.3. 1948. Bróðir Jóns var Halldór Kristinn Sigurbjörnsson, f. 17.12. 1920, d. 7.12. 1979.
Jón giftist Þóru Friðriksdóttur leikkonu, f. 26.4. 1933, d. 12.5. 2019. Þau skildu árið 1981. Dætur Jóns og Þóru eru: 1) Lára, f. 11.7. 1957. Börn hennar og Jóns Tryggvasonar eru Iðunn, f. 18.9. 1987 og Tryggvi, f. 29.1. 1990. Maki hans er Ragna Margrét Einarsdóttir, f. 11.8. 1994 og dóttir þeirra er Bríet Lára, f. 5.2. 2020. 2) Kristín, f. 4.6. 1965. Maður hennar er Sigmundur Jóhannesson, f. 25.9. 1957. Dætur Sigmundar eru: 1) Tinna Björk, f. 22.9. 1980 og 2) Arna Þöll, f. 9.12. 1988.
Jón ólst upp í Borgarnesi og hóf sinn starfsferil sem vegavinnumaður og mjólkurbílstjóri í Borgarfirði. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1941 og stundaði nám í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar veturinn 1944-45. Hann stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Páls Ísólfssonar árin 1943-1946. Síðan fór hann til leiklistarnáms við The American Academy of Dramatic Arts í New York og lauk þaðan prófi vorið 1948. Söngnám stundaði hann í New York samhliða leiklistarnáminu. Jón fór til Ítalíu til að nema óperusöng. Í Mílanó og Róm bjó hann árin 1961-64. Þar með var söngnámi þó ekki lokið, því hann æfði söng hjá Sigurði Demetz árum saman á Íslandi.
Jón hóf leiklistarferil sinn sem Hóras í Hamlet hjá Leikfélagi Reykjavikur vorið 1949. Hann lék þar síðan næstu árin og var formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956-59. Jón var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið 1960-67, að undanskildum árunum 1964 og 1965, er hann var ráðinn til Konunglegu sænsku óperunnar í Stokkhólmi. Þar söng hann m.a. í óperunum Il trovatore, Rigoletto og Aidu. Jón söng einnig hér heima, m.a. hlutverk nautabanans í Carmen, sem hann leikstýrði sjálfur hjá Þjóðleikhúsinu. Hann söng í íslensku óperunum Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson, sem báðar voru færðar upp af Þjóðleikhúsinu.
Hann var fastráðinn leikari Leikfélags Reykjavikur árin 1967-1992. Þar lék hann ótalmörg hlutverk, t.d. í Villiöndinni eftir Henrik Ibsen og Pétri og Rúnu eftir Birgi Sigurðsson. Jón var jafnframt mikilvirkur leikstjóri og stýrði ótal sýningum hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Síðar meir var hann gerður að heiðursfélaga Leikfélagsins. Hann leikstýrði töluvert með áhugaleikfélögum, og þá helst Leikfélagi Hrunamanna á Flúðum. Hann var mikill áhugamaður um kvikmyndir og lék í þeim nokkrum, t.d. Landi og sonum eftir Ágúst Guðmundsson og Magnúsi eftir Þráin Bertelsson. Síðasta kvikmyndahlutverkið var í Síðasta bænum eftir Rúnar Rúnarsson.
Árið 1977 kom út hljómplatan Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenska höfunda á vegum SG hljómplatna með söng Jóns þar sem Ólafur Vignir Albertsson lék undir á píanó. Árið 2003 gaf Ríkisútvarpið út veglegan geisladisk með söng Jóns undir yfirskriftinni Útvarpsperlur.
Jón fluttist að Helgastöðum í Biskupstungum árið 1992, þar sem hann stundaði sitt helsta áhugamál síðustu árin, hestamennsku og hrossarækt. Hann kenndi söng í Tónlistarskólanum á Hellu í nokkur ár eftir að hafa flutt á Helgastaði.
Síðustu 6 árin bjó Jón á Hrafnistu í Reykjavík.