Grunur leikur á um að fyrsta tilfelli nýs afbrigðis kórónuveirunnar, Ómíkron, sé komið upp hér á landi. Það hefur þó ekki fengist staðfest með óyggjandi hætti.
Upplýsingafulltrúi almannavarna tjáði mbl.is í kvöld að unnið væri að því að raðgreina sýnið sem um er að ræða. Ekki fengust þó upplýsingar um hvar sýnið hefði verið tekið eða þá af hvaða tilefni.
Uppfært:
Sjúklingur á Landspítalanum hefur greinst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.
Sá grunur, sem mbl.is greindi fyrst frá fyrr í kvöld, hefur því verið staðfestur.
Hversu vel bóluefni duga gegn Ómíkron-afbrigðinu er enn á huldu. Búast má við niðurstöðum rannsókna um það á næstu dögum.
Afbrigðið var fyrst uppgötvað í Suður-Afríku en þarf þó ekki endilega að hafa orðið til þar. Suðurafrískir læknar hafa sagt að svo virðist sem veikindi af völdum afbrigðisins séu vægari en af öðrum afbrigðum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að þrátt fyrir að stjórnvöld víða um heiminn hefðu ákveðið að herða sóttvarnaraðgerðir á landamærum sínum vegna afbrigðisins, væru engar breytingar fyrirhugaðar á landamærum Íslands að svo stöddu.
Hann sagði það þó geta breyst í ljósi nýrra upplýsinga og að hann væri enn að bíða eftir frekari upplýsingum um hið nýja afbrigði.
Þórólfur hefur áður sagt að mjög erfitt verði að koma í veg fyrir að afbrigðist berist hingað til lands.
„Það eru afar fá lönd sem hafa náð að raðgreina allar veirurnar eins og við höfum gert. Þannig við getum sagt með nokkurri vissu að þetta afbrigði veirunnar hefur ekki greinst hér,“ sagði hann í gær.
„Ég veit þó af nokkrum tilfellum sem greinst hafa í Skotlandi, sem hafa ekki tengsl við útlönd, sem segir okkur að þetta sé komið víðar en menn halda.“