Hæstiréttur fjallar um brunadeilu Pennans og VÍS

Verslun Griffils í Skeifunni gjöreyðilagðist í stórbruna árið 2014.
Verslun Griffils í Skeifunni gjöreyðilagðist í stórbruna árið 2014. mbl.is/Eva Björk

Hæstiréttur Íslands hefur samþykkt málskotsbeiðni Vátryggingarfélags Íslands (VÍS) í máli gegn Pennanum. Það varðar dómsmál er Penninn höfðaði í júní 2019 á hendur VÍS til greiðslu bóta úr rekstrarstöðvunartryggingu vegna tjóns sem hann varð fyrir í júlí 2014 þegar húsnæði sem hann hafði á leigu undir starfsemi verslunarinnar Griffils brann. Penninn hafði svo betur í Landsrétti.

Fram kemur á vef Hæstaréttar, að bótauppgjör vegna tjónsins hafi farið fram 23. júlí 2015. Penninn mótmælti uppgjörinu í ágúst 2015 þar sem hann taldi tjón sitt ekki að fullu bætt og gerði kröfu um greiðslu eftirstöðva bóta. Í héraðsdómi var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst var dæmt um varnir VÍS sem byggðust á fyrningu. Héraðsdómur taldi að Penninn hefði haft allar nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem voru grundvöllur kröfunnar þegar hann setti fram bótakröfu sína 31. desember 2014, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um vátryggingarsamninga. Kröfuna setti hann fram í kjölfar útreikninga endurskoðenda á áætlaðri framlegð sinni á vátryggingartímabilinu. Fyrningarfresturinn hafi því byrjað að líða 1. janúar 2015 og krafan fallin niður fyrir fyrningu.

Með dómi Landsréttar var niðurstöðu héraðsdóms snúið við. Talið var að þau atvik er lægju til grundvallar bótakröfu úr tryggingunni kæmu í fyrsta lagi fram þegar ljóst væri hvort rekstur hæfist að nýju. Eftir gögnum málsins þótti liggja fyrir að í janúar 2015 hefði enn verið „til skoðunar hjá aðilum hvort unnt væri að endurreisa rekstur“ verslunarinnar og voru nauðsynlegar upplýsingar í skilningi ákvæðisins því ekki taldar hafa verið komnar fram fyrir þann tíma. Að þessu virtu var fyrningarfrestur kröfunnar ekki talinn hafa byrjað að líða fyrr en í árslok 2015 og krafan því ófyrnd.

VÍS byggir á að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu á 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 að því er varðar upphafstíma fyrningar kröfu úr skaðatryggingu, þar með talið rekstrarstöðvunartryggingu. Þá vísar hann til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Niðurstaða Landsréttar leiði til þess að hinum vátryggða sé veitt færi á að ákveða einhliða upphaf fyrningarfrests. Niðurstaðan fari gegn því meginsjónarmiði sem búi að baki fyrningarreglum kröfuréttar að vernda hagsmuni bæði kröfuhafa og skuldara með réttaröryggi að leiðarljósi. Mjög mikilvægt sé að fá niðurstöðu Hæstaréttar um hvort allir bótaliðir samkvæmt tryggingu þurfi að vera komnir fram og endanlegt umfang tjóns liggi þannig fyrir áður en upphaf fyrningarfrests geti hafist. Loks telur hann að niðurstaða Landsréttar hafi verið byggð á málsástæðu sem gagnaðili hafi hvorki byggt á í héraði né þar fyrir dómi.

Þrír dómarar við Hæstarétt sammþykktu áfrýjunarleyfið á þeim grunni að líta verður svo á að dómur í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um upphafstíma fyrningarfrest skaðatrygginga þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka