Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þá sem segi bráðamóttöku Landspítalans sprungna og ástandið á Landspítalanum hræðilegt, stundi lífshættulega pólitík.
Egill Þór er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum.
Egill Þór, sem greindist sjálfur með krabbamein í sumar og aftur í síðustu viku, segir að hann hafi sjálfur þráast við að leita sér hjálpar á bráðamóttökunni og veikindi hans hafi gengið lengra en ella vegna þess að skilaboðin til samfélagsins væru að fólk ætti ekki að koma á sjúkrahúsið.
Hann vísar í viðtal Björns Zoëga, fyrrverandi forstjóra Landspítalans og núverandi forstjóra Karolínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, í Dagmálum þar sem hann sagði fólk vera að koma veikara inn í heilbrigðiskerfið en áður vegna þess að það veigri sér við að leita sér aðstoðar.
Egill Þór hefur þegar gengið í gegnum eina krabbameinsmeðferð og „sigrast“ á meininu einu sinni en fékk fréttir þess efnis í síðustu viku að hann væri aftur kominn með krabbamein og bíður nú frekari rannsókna.
Egill Þór segir frá raunum sínum, hvernig engan órar fyrir, svo ungan, að geta greinst með krabbamein og hvernig var að takast á við tilhugsunina um dauðann með nýtt líf á leiðinni og pólitíkina sem hann fylgist nú með frá hliðarlínunni í Dagmálum.
Viðtalið í heild sinni má nálgast hér.