Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja máli Carmenar Jóhannsdóttur gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrrverandi utanríkisráðherra til Landsréttar.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Jón Baldvin var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í mánuðinum af ákæru þar sem hann var sakaður um að hafa brotið kynferðislega á Carmen Jóhannsdóttur sumarið 2018 þar sem hún var gestkomandi á heimili hans á Spáni ásamt fjölskyldu sinni.
Dröfn Kærnested, sækjandi í máli Carmenar, hafði farið fram á að honum yrði gert að sæta fangelsi í tvo til þrjá mánuði skilorðsbundið. Þá fór skipaður réttargæslumaður Carmenar fram á að hann yrði dæmdur til að greiða miskabætur upp á eina milljón króna, auk vaxta.
Héraðsdómur féllst ekki á þær kröfur og var Jón Baldvin sýknaður.
Dröfn Kærnested sagði þá í samtali við mbl.is að líklegt væri að áfrýjun yrði skoðuð vel. Dómurinn væri mikil vonbrigði enda óvanalegt að sýknað væri í kynferðisbrotamálum þegar sjónarvottur er til staðar. Hefði ákæruvaldið staðið í þeirri trú að það væri með sterkt mál í höndunum.