Vatn hefur seytlað smátt og smátt í Gígjukvísl í gærdag og nótt og vatnshæð þar hefur hækkað um metra frá síðustu viku. Sig íshellunnar í Grímsvötnum heldur enn fremur áfram og er nú orðið tíu metrar frá því að Veðurstofa Íslands fór að fylgjast með stöðu mála.
Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Við teljum að þetta muni aukast jafnt og þétt næstu daga.“
Sig íshellunnar í Grímsvötnum virðist heldur vera að hraða sér en Einar telur að hún lækki um þrjá til fjóra metra á sólarhring.
Samkvæmt spálíkani jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands er gert ráð fyrir því að rennslistoppi úr Grímsvötnum verði náð á sunnudag.
„Þetta verður hægur atburður og raunvísindastofnun Háskóla Íslands gerir ráð fyrir því að hlaup muni ná hámarki á sunnudaginn og við fylgjumst áfram með þróuninni. Þá verði hámarksrennsli svona 4.000 rúmmetrar á sekúndu,“ segir Einar.
Líkur hafa verið taldar á eldgosi í kjölfar hlaups en engin merki hafa sést um slíkt. Einar segir þó ekki hægt að útiloka það:
„Það verður rosalegur þrýstingsléttir þegar allt þetta vatn hleypur fram og þetta er sviðsmynd sem við höfum í hug og fylgjumst vel með öllum mælum.“