Ómíkron vekur ugg en kann að veita von

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur vakið nokkurt uppnám víða.
Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur vakið nokkurt uppnám víða. AFP

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur vakið nokkurt uppnám víða og stjórnvöld í mörgum löndum boðað hertar sóttvarnareglur af þeim völdum, jafnvel þannig að sums staðar óttast menn um að enn ein jólahátíðin sé að fara í súginn. Á hinn bóginn reyndi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) að sefa menn í tilkynningu í gær þar sem sagt var að þrátt fyrir að smithættan af völdum afbrigðisins væri mikil, þá lægi ekkert fyrir um að það væri skeinuhættara en hin fyrri og varaði við óðagoti vegna þess.

Ýmsir sérfræðingar hafa látið svipuð sjónarmið í ljós og jafnvel haft uppi vonir um að Ómíkron-afbrigið geti reynst til þess fallið að binda enda á faraldurinn. Dr. Ugur Sahin, stofnandi BioNTech, sem þróaði bóluefni Pfizer, talaði sjálfsagt skýrast um afbrigðið: „Ekki fríka út,“ sagði hann og benti á að þrátt fyrir að afbrigðið kynni að koma sér hjá mótefnum, þá hefði ónæmiskerfi líkamans ýmis önnur vopn, sem bólusetning brýndi.

Hversu vel bóluefnin duga gegn Ómíkron-afbrigðinu er þó enn á huldu. Búast má við rannsóknarniðurstöðum um það á næstu dögum.

Mynd/mbl.is

Kom fram í Suður-Afríku

Ómíkron-afbrigðið var fyrst uppgötvað í Suður-Afríku og vísindamenn þar í landi greindu þegar í stað óvenjumargar stökkbreytingar á veirunni, sem gætu bæði gert hana meira smitandi og erfiðari viðfangs fyrir ónæmiskerfi líkamans, jafmvel þó svo fólk sé bólusett eða hafi áður fengið veiruna.

Hins vegar hafa suðurafrískir læknar einnig sagt að veikindi af völdum Ómíkron virðist vægari en af öðrum afbrigðum og ekki öll hin sömu, en hin helstu eru þreyta. Þeir vilja þó ekki fullyrða of mikið og segja enn eftir að koma í ljós hvernig afbrigðið leikur eldri sjúklinga.

Reynist Ómíkron meira smitandi en fyrri afbrigði – þar er einkum horft til Delta-afbrigðisins – en valda mun vægari einkennum og færri dauðsföllum, þá kunna góðar fréttir að felast í því. Ómíkron-afbrigðið kynni þá að útrýma fyrri afbrigðum og flýta þannig fyrir endalokum faraldursins, sérstaklega ef það eða síðari afbrigði út frá því verða lítið annað en kvef.

Getur brugðið til beggja vona

Um það er þó of snemmt að segja, en þó að þróunin sé oft á þá lund, þá eru líka mörg dæmi um hið gagnstæða.

„Veirur verða ekki óhjákvæmilega minna skæðar með tímanum,“ sagði Carl Bergstrom, erfðalíffræðingur við Washington-háskóla í Seattle á Twitter. „Ef það hefur gerst með Ómíkron – og það er of snemmt að segja – þá væri það heppni.“

Þrátt fyrir að það eigi við um hefðbundnar kvefpestir, sem eru af ætt kórónuveira, þá á það ekki við um inflúensur, mislinga eða bólusótt, svo dæmi séu tekin.

Ýmsir umhverfisþættir skipta þarna einnig máli. Bæði Alfa- og Delta-afbrigðin komu fram meðan lítið var um náttúruleg mótefni vegna smita og bólusetning sáralítil. Nú er hins vegar talsvert af mótefni og bólusetning víða mjög almenn, svo náttúruval veirunnar er annað fyrir vikið og þróun hennar því á aðra leið en áður.

Sem fyrr segir er of snemmt að segja til um eðli Ómíkron, en þar getur brugðið til beggja vona, það getur annað hvort falið í sér lausn eða enn eina bylgjuna og verri.

Xi vafðist fyrir WHO

Í gríska stafrófinu eru 24 stafir, en það hefur verið notað til að nefna afbrigði kórónuveirunnar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ákvað þó að sleppa tveimur, fyrst Ny og síðan Xí, svo nýjasta afbrigðið er nefnt Ómíkron. Ástæðan er að Ny þótti of líkt „new“, en Xí þótti minna um of á Xi Jinping, einræðisherra Kína, sem er spéhræddur maður og hefur mikil ítök í WHO.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka