Sjúklingur á Landspítalanum hefur greinst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.
Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, í samtali við mbl.is.
Sá grunur, sem mbl.is greindi fyrst frá fyrr í kvöld, hefur því verið staðfestur.
Már segist ekki hafa „græna glóru“ um hvernig sjúklingurinn hafi smitast af afbrigðinu en hann hafi ekki smitast erlendis.
Sjúklingurinn hafi lagst inn á spítalann vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar og að hann hafi í kjölfarið greinst með Ómíkron-afbrigðið í kvöld.
Már segir að sjúklingurinn hafi hefðbundin einkenni.
Hversu vel bóluefni duga gegn Ómíkron-afbrigðinu er enn á huldu. Búast má við niðurstöðum rannsókna um það á næstu dögum.
Afbrigðið var fyrst uppgötvað í Suður-Afríku en þarf þó ekki endilega að hafa orðið til þar. Suðurafrískir læknar hafa sagt að svo virðist sem veikindi af völdum afbrigðisins séu vægari en af öðrum afbrigðum.