Framkvæmdir eru að hefjast við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum vestur fyrir Lögbergsbrekku skammt ofan Reykjavíkur, með hliðarvegum og undirgöngum fyrir reiðvegi.
Árni Geir Eyþórsson frá Jarðvali sf. og Árni Snær Kristjánsson frá Bjössa ehf. skrifuðu undir verksamning ásamt forstjóra Vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur, síðastliðinn mánudag. Bergþóra sagði af því tilefni óvenjulangan tíma hafa tekið að fá framkvæmdaleyfi vegna stöðu á skipulagsmálum á svæðinu.
Tilboð í verkið voru opnuð um miðjan júlí sl. Fjögur tilboð bárust og var það lægsta krónur 791.459.500, sem var tekið.Var það 84,5% af áætluðum verktakakostnaði, sem var tæpar 937 milljónir.
Samkvæmt verklýsingu verða byggðar tvær nýjar akreinar norðan við núverandi Suðurlandsveg með 11 metra miðdeili. Lengd útboðskaflans er um 3,3 kílómetrar.
Tengingum inn á veginn verður fækkað í því skyni að auka öryggi og bæta umferðarflæði. Útbúin verða undirgöng (undir tvöfaldan Suðurlandsveg) fyrir ríðandi umferð neðarlega í Lögbergsbrekkunni.Verklok eru áætluð á næsta ári.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hér um að ræða fyrri áfanga af tveimur í tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Hólmsár og Fossvalla, samtals um 5,3 kílómetra leið. Seinni áfanginn er í undirbúningi og Vegagerðin vonast til að geta boðið hann út fljótlega.Verkefnið er á samgönguáætlun.
Unnið hefur verið af krafti við breikkun Suðurlandsvegar undanfarin ár og Alþingi hefur veitt umtalsverða fjármuni til þeirra verkefna. Framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss standa yfir. Íslenskir aðalverktakar vinna verkið.
Því verður fagnað á næsta ári að 50 ár eru liðin síðan hægt var að aka á bundnu slitlagi frá Reykjavík til Selfoss. Um var að ræða tvíbreiðan veg, alls 58,2 kílómetra, frá Lækjartorgi til Selfoss. Vegagerðin hófst 1966 og vegurinn vígður seint í nóvember 1972.