Alþingi hóf fyrstu umræður um fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra fyrir árið 2022 klukkan hálftólf að hádegi og lauk þingfundi þegar klukkuna vantaði eina mínútu í ellefu að kvöldi.
Umræðum var frestað og mun þeim því haldið áfram klukkan hálf ellefu í fyrramálið.
Þingfundur dagsins hófst þó klukkan hálf ellefu, með umræðum um fundarstjórn og kosningu nýs 3. varaforseta, í stað Ingu Sæland sem sagði sig úr því hlutverki. Þá voru einnig kosnir ellefu þingmenn úr öllum þingflokkum í framtíðarnefnd og fulltrúi, ásamt varamanni, kosinn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
Tvö stutt hlé voru gerð en, sé litið framhjá þeim, stóð þingfundur yfir í tólf og hálfa klukkustund. Þar af fóru umræður um fjárlagafrumvarpið fram í ellefu og hálfa klukkustund.