Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína og nýrrar ríkisstjórnar á Alþingi í gærkvöldi og reifaði þar helstu stefnumál hennar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Að því leyti var ræðan endurómur hins ýtarlega stjórnarsáttmála, sem kynntur var liðinn sunnudag, en af henni mátti vel ráða hvað forsætisráðherra þykir mikilvægast. „Verkefnið nú er að byggja upp hagkerfið og styrk ríkisfjármálanna að nýju með stuðningi við fjölbreyttara og sterkara atvinnulíf, aukinni opinberri fjárfestingu í grænum verkefnum, rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum.“
Meðal helstu breytinga sagði forsætisráðherra að húsnæðismál yrðu samþætt við skipulags- og samgöngumál og nefndi að áfram yrði unnið samkvæmt höfuðborgarsáttmálanum. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara yrði tvöfaldað um næstu áramót og málefni örorkulífeyrisþega tekin til endurskoðunar. Þá varði hún nokkrum tíma til þess að fjalla um loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar, sem snertu ótal svið. Katrín sagði að áfram yrði haldið endurskoðun laga um eignarhald á landi og fasteignum; mikilvægir grundvallarinnviðir væru best geymdir í almannaeigu og boðaði frumvarp um rýni á fjárfestingum útlendinga á þeim.
Ráðherrann sagði að haldið yrði áfram vinnu við breytingar á stjórnarskrá, sem hún kvað mikilvægt að Alþingi gerði, ekki síst um auðlindir í þjóðareign og náttúruvernd. Hún sagði eðlilegt að það tæki tíma að breyta stjórnarskránni; mestu skipti „að við vöndum okkur og náum niðurstöðu sem sátt ríkir um“.
Hún vék að breytingum á Stjórnarráðinu og sagði æskilegt að það væri sveigjanlegt til þess að stefna ríkisstjórnar og vilji þings gengi vel fram. Kvaðst Katrín vilja endurskoða lög um Stjórnarráðið og sagðist leita eftir góðu samráði við alla flokka á Alþingi þar um.
Loks vék forsætisráðherra að íslenskum stjórnmálum og hvatti til aukins umburðarlyndis í opinberri umræðu. „Rökræða og jafnvel stöku rifrildi eru mikilvæg forsenda þess að við leiðum fram kosti og galla hvers máls. Við þurfum því að sýna skoðunum annarra meiri virðingu en stundum er gert í hanaslag netsins og hollt að muna að það er enginn sem er handhafi alls hins rétta og góða í samfélaginu.“
Lengri umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.