Rennslið nálgast þúsund rúmmetra á sekúndu

Jökulhlaupið kemur fram í Gígjukvísl.
Jökulhlaupið kemur fram í Gígjukvísl. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Rennsli hlaupvatnsins í Gígjukvísl hefur aukist töluvert frá því seinnipartinn í gær en  samkvæmt nýjustu mælingum stendur það í rúmlega 920 rúmmetrum á sekúndu, að sögn náttúruvársérfræðings. 

Vatn sem búið er að safnast saman undir jöklinum er nú farið að leita niður í Gígjukvísl og hefur íshellan í Grímsvötnum nú sigið um rúma 16 metra. Hafa vísindamenn sagt að þrýstiléttirinn í kjölfar hlaups geti aukið líkur á eldgosi en dæmi um slíka atburðarás gerðist til að mynda árin 2004, 1934 og 1922.

Mynd tekin í gær af suðvestur svæði Grímsvatna.
Mynd tekin í gær af suðvestur svæði Grímsvatna. Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson

Gæti fjórfaldast á næstu dögum

Þegar vatnamælingamenn frá Veðurstofu Íslands mældu grunnrennslið um morguninn 29. nóvember var það um 240 rúmmetrar á sekúndu og hefur það því aukist um tæplega 700 rúmmetra á sekúndu síðan þá.

Hlaupið úr Grímsvötnum er þó langt frá því að ná hámarki en rennslið gæti ríflega fjórfaldast á næstu tveimur dögum og náð hámarki um seinnipart laugardags eða á sunnudag.

„Rennslið gæti haldið áfram að aukast og farið upp í allt að fjögur þúsund rúmmetra á sekúndu,“ segir Einar Bessi Gestson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Ólíklegt að mannvirki verði fyrir skemmdum

Einar segir afar ólíklegt að hlaupið muni hafa einhver áhrif á mannvirki á borð við þjóðveg eða brýr, en síðast urðu skemmdir á brúm árið 1996 þegar að stórt jökulhlaup kom í kjölfar eldgoss. Eyðilagðist þá brúin yfir Gígjukvísl og hluti af Skeiðarárbrú skemmdist.

„Þá var eldgos norðan við Grímsvötn sem að bræddi mikið magn af ís. Þá erum við að tala um stærri atburð en það er ekki það sem við erum að búast við núna“ segir Einar.

Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert