Félagbústaðir, Arkitektafélag Íslands og Reykjavíkurborg ætla að efna til arkitektasamkeppni snemma á nýju ári. Hún mun snúast um að byggja hæð ofan á nokkur lyftulaus fjölbýlishús sem alfarið eru í eigu Félagsbústaða og jafnframt að setja lyftur í húsin, að sögn Ævars Harðarsonar, arkitekts og deildarstjóra hjá Hverfisskipulagi Reykjavíkur.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Samkeppnin mun snúast um að finna góðar og hagkvæmar lausnir, bæði skipulagslega og tæknilega, og vekja með því áhuga byggingariðnaðarins. Ef til vill finnast góðar og hagkvæmar lausnir sem gætu þá vakið áhuga húsfélaga,“ sagði Ævar. Hann sagði að enn sem komið er hafi engin umsókn borist um leyfi fyrir framkvæmd af þessu tagi.
Nýtt hverfisskipulag, sem hefur verið samþykkt fyrir Árbæjarhverfi og er á lokametrunum fyrir Breiðholtið, heimilar að byggja inndregna hæð ofan á lyftulaus fjölbýlishús og bæta við lyftu. Sömu áform eru í vinnutillögum fyrir Hlíðahverfi, Háteigshverfi og Öskjuhlíð. Gróft áætlað má ætla að bygging ofan á fjölbýlishús í Arbæjarhverfi og Breiðholti geti þýtt 2-3 íbúðir á hvert húsnúmer eftir útfærslum. Það getur geti þýtt 800-1.200 nýjar íbúðir ef þessi möguleiki verður alls staðar nýttur. Sigurður Helgi Guðjónsson, lögfræðingur og formaður Húseigendafélagsins, telur það ólíklegt.
„Þetta er tálsýn. Það þarf að liggja fyrir samþykki allra íbúðareigenda í fjöleignahúsi fyrir svona framkvæmd og það næst aldrei,“ sagði Sigurður. „Þeir sem búa á neðstu hæðinni munu ekki sjá ástæðu til að hafa lyftu og munu aldrei gera þetta. Þetta getur ef til vill orðið í húsum sem eru í eigu eins aðila, eins og Félagsbústaða. Eða ef verktaki kaupir allar íbúðirnar og ákveður að byggja ofan á.“ Sigurður sagði ljóst að mikið ónæði og röskun muni fylgja svona framkvæmdum fyrir íbúa fjöleignarhússins. „Þetta er óframkvæmanlegt nema einn aðili eigi allt.“