Snjótittlingur á ferð og flugi

Snjótittlingar í vetrarhreti á Seltjarnarnesi.
Snjótittlingar í vetrarhreti á Seltjarnarnesi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Snjótittlingur sem var litmerktur hér á landi fannst nýlega í Þýskalandi og mun þetta vera í fyrsta skipti sem það gerist. Um var að ræða kvenfugl sem merktur var við Víkingavatn 5. apríl í vor með auðkennisnúmerinu A39. Ekkert hafði spurst til A39 frá merkingu fyrr en tilkynning kom frá þýskum fuglaáhugamanni sem sá hann á eyjunni Amrum í Norðursjó, við strönd Þýskalands.

Frá þessu er greint á heimasíðu Náttúrustofu Norðausturlands og þar segir að rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi hafi hafið litmerkingar á snjótittlingum veturinn 2019-2020. Tveir starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands tóku þátt í verkefninu og hafa frá fyrri hluta árs 2021 merkt snjótittlinga við Víkingavatn, á Húsavík og í Grímsey.

350 snjótittlingar litmerktir

Snjótittlingarnir voru veiddir í gildru þar sem þeir komu í fóðurgjafir að vetrarlagi. Merki voru sett á báða fætur, hefðbundið álmerki á þann vinstri en á hægri fótinn var settur rauður plasthringur með hvítri áletrun. Áletrunin samanstóð af einum bókstaf og tveimur tölustöfum. Á góðu færi má svo lesa áletrunina með sjónauka eða með því að ljósmynda fuglana.

Búið er að merkja um 350 snjótittlinga með þessum litmerkjum og eru álestrar á þá orðnir eitthvað á fimmta hundrað. Langalgengast er að merktir snjótittlingar sjáist aftur á merkingarstað en nokkrir hafa lagt land undir væng og fundist misfjarri merkingarstað. Þannig hafa snjótittlingar merktir á Húsavík fundist við Víkingavatn, á Kópaskeri og í Jökuldal. Snjótittlingar merktir við Víkingavatn hafa fundist á Akureyri, Húsavík, Kópaskeri og í Jökuldal.

Áður en A39 skaut upp kollinum í Þýskalandi, höfðu fuglar merktir hér fundist í öðrum löndum á þessum slóðum, s.s. Danmörku og Hollandi, segir á heimasíðu NNA.

Að nokkru farfugl

Snjótittlingurinn er af ættbálki spörfugla og er norðlægasti spörfuglinn á jörðinni, að því er segir á fuglavefnum. Þar segir að snjótittlingurinn, eða sóskríkjan, sé að nokkru farfugl og að hluti stofnsins hafi vetursetu í Skotlandi og grænlenskir fuglar séu far- og vetrargestir hér. Snjótittlingurinn er 16–17 sentimetrar að lengd, 30–40 grömm að þyngd og með 32–38 sm vænghaf.

Í nýrri bók Sigurðar Ægissonar, sóknarprests á Siglufirði, Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar: Fugladagbókin 2022, er fjallað um snjótittlinginn og ferðalög hans. Þar segir meðal annars: „Lengstum var talið að snjótittlingurinn væri algjör staðfugl hér á landi, en eftir að farið var að stunda merkingar að einhverju ráði hefur komið í ljós, að hluti stofnsins leggst í flakk til annarra landa á haustin og fyrri part vetrar, aðallega til Skotlands. Eru það einkum kven- og ungfuglar. Erfiðir vetur á Fróni geta haft þar nokkuð um að segja.

Einnig hafa náðst á Íslandi snjótittlingar merktir erlendis, nánar tiltekið í Bandaríkjunum (1), Bretlandseyjum (35), Danmörku (1), Finnmörku í Noregi (1), Grænlandi (1) og Hollandi (3),“ segir í bók Sigurðar um fuglana.

Þar segir enn fremur að íslensk þjóðtrú geymi fátt um snjótittlinginn. Þó er mælt að af honum megi læra um ókomin veðrabrigði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert