Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kveðst standa við fyrri fullyrðingu sína um að viðbrögðin vegna Ómíkron-afbrigðisins séu umfram það sem gögn gefi efni til.
Íslensk erfðagreining hefur að nýju hafið daglega raðgreiningu smita til þess að greina hvernig afbrigðið dreifir sér um samfélagið.
Greint hefur verið frá því í dag að fyrsta Ómíkrón-smitið sem greindist í gær sé að vinda upp á sig, en Vísir greindi rétt í þessu frá því að grunur sé um að allt að sjö hafi greinst með afbrigðið hér á landi. Talið sé að fyrsta tilfellið hafi greinst á Akranesi en einnig eru bundnar vonir við að smitin tengist öll og afbrigðið því ekki búið að dreifa sér.
Spurður út í fyrri fullyrðingu sína um að viðbrögðin séu umfram það sem gögnin gefi efni til segir hann:
„Ég er bara að segja að það eru engin gögn komin sem sýna fram á að afbrigðið sé smitnæmara, valdi alvarlegri sjúkdómi eða eigi auðveldara með að smeygja sér fram hjá ónæmiskerfinu heldur en önnur afbrigði. Þessi gögn liggja bara ekki fyrir enn sem komið er.“
Þrátt fyrir það segir Kári Íslenska erfðagreiningu hafa tekið að nýju upp á því að raðgreina daglega smit sem greinast. En sá háttur var hafður á þegar faraldurinn reið röftum hér í fyrra og snemma á árinu. Kári segir þetta gert til þess að fylgjast náið með því hvernig afbrigðið dreifir sér um samfélagið.
Ýmsar sviðsmyndir koma til greina hvað varðar framhaldið og áhrifin af þessu nýja afbrigði. Einhverjir telja að afbrigðið gæti verið þess eðlis að það sé smitnæmara en önnur en valdi þó minni veikindum. Kári segir allar slíkar vangaveltur vera einmitt það, vangaveltur, að minnsta kosti fyrr en gögn liggi fyrir. Hann segir líklegt að eftir tvær vikur verði komin svör við einhverjum af þessum spurningum.
„Sú sviðsmynd að afbrigðið sé smitnæmara en valdi minni veikindum er í samræmi við það hvernig þróunin vinnur. Vegna þess að það þjónar hagsmunum veirunnar að vera meira smitandi og valda minni sjúkdómum,“ segir Kári.
Hann bendir þá á að verði áðurnefnd sviðsmynd raunin þá ætti það „að vera í fínu lagi“. Einnig skiptir virkni bóluefna miklu máli ef spáð er fram í tímann. En líkt og með annað er við kemur afbrigðinu segir Kári ljóst að við verðum að bíða og sjá.
Sjálfur segist hann hafa trú á því að bóluefnin sem nú eru í notkun hafi virkni gegn afbrigðinu, þó mögulega eitthvað minni virkni, annað kæmi honum verulega á óvart. „En ég er nú samt orðinn eins konar atvinnumaður í því að vera hissa,“ segir hann léttur.
En ef raunin verður sú að bóluefnin hafi enga virkni gegn Ómíkron, erum við þá aftur komin á byrjunarreit?
„já það má segja það. Þá þyrfti bara að búa til nýtt bóluefni. En eins og staðan er í dag þá verðum við bara að bíða og taka þessu rólega.“