Ýmsum spurningum um Ómíkron ósvarað

Sýni sem tekin eru í almennri skimun eru greind í …
Sýni sem tekin eru í almennri skimun eru greind í sjálfvirkum tækjum. mbl.is/Karítas

Öll kórónuveirusýni sem reynast jákvæð fara í raðgreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Það þýðir að í hverju einasta jákvæða tilviki er kannað hvaða afbrigði veirunnar sé þar á ferðinni. Raðgreining tekur einn til tvo sólarhringa. Afkastamiklu sjálfvirku PCR tækin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sem skera úr um það hvort kórónuveirusýni sé jákvætt eða neikvætt, áður en það fer í raðgreiningu, greina vel Ómíkron-afbrigðið en geta ekki greint það afbrigði frá öðrum afbrigðum eins og Delta afbrigðinu. Það gera aftur á móti tæki deildarinnar sem notuð eru til að greina sýni sem koma frá sjúklingum á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum.

Fyrsta Ómíkron-afbrigði veirunnar hérlendis greindist hjá sjúklingi á spítalanum í gær.

„Ástæðan fyrir því að við fengum grun um að þetta gæti verið Ómíkron-afbrigðið í gær var sú að þetta var sjúklingasýni sem kom frá Landspítala,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, og útskýrir að sýnin frá spítalanum fari aðra leið en þau sýni sem tekin eru á Suðurlandsbraut, við landamærin og víðar í almennri einkenna-, sóttkvíar- og landamæraskimun.

„Þau sýni fara í gegnum þessi stóru sjálfvirku Cobas-tæki hjá okkur. Næmi þeirra greiningartækja til þess að greina er jafn mikið á þessu afbrigði og öðrum afbrigðum en hins vegar getum við ekki greint Ómíkron frá öðrum afbrigðum í þeirri leið,“ segir Karl.

Karl G. Kristinsson yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.
Karl G. Kristinsson yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Skiptir máli að raðgreina slík sýni sem fyrst

Þegar sýni koma til sýkla- og veirufræðideildar frá sjúkrastofnun greinir starfsfólk sýkla- og veirufræðideildar í öðrum tækjabúnaði þrjú mismunandi gen í veirunni.

„Eitt af því sem genaþreifararnir beinast að er S-genið með Ómíkron stökkbreytingarnar. Ef það er mikið af veirunni og samt svarar/fjölfaldast þetta gen ekki þá bendir það til þess að þetta geti verið Ómíkron-afbrigðið og þá skiptir máli að raðgreina það sem fyrst til þess að staðfesta það,“ segir Karl.  

Genaþreifarar Cobas 8800-tækjanna eru ekki fyrir S-genið sem er það stökkbreyttasta í Ómíkron-afbrigðinu en tækin þarf sýkla- og veirufræðideild að nota til þess að eiga kost á því að greina allan þann mikla fjölda sýna sem tekinn er daglega.

Þar sem sá sem greindist smitaður af Ómíkron-afbrigðinu í gær smitaðist innanlands segir Karl líklegt að fleiri tilvik Ómíkron-afbrigðisins muni greinast á næstunni. Tvö slík smit hafa verið staðfest til viðbótar í dag.

„Það eru miklu meiri líkur á því heldur en minni miðað við það að þetta var ekki tilfelli sem greindist á landamærunum heldur innlent smit.“

Mikið langhlaup á sýkla- og veirufræðideild

En hvers vegna skiptir máli að skera úr um það hvort veira sé af Ómíkron-afbrigði eða einhverju allt öðru? Karl segir að það sé mikilvægt til þess að komast að því hvort nýja afbrigðið sé meira smitandi, hvort bóluefni virki á það og hvort það valdi mildari eða alvarlegri sjúkdómi. Ýmsum spurningum í þeim efnum er enn ósvarað. Þeim verður svarað með tímanum, eftir því sem fleiri tilvik greinast.

„Þangað til við vitum meira um það þá reyna sóttvarnayfirvöld að hamla útbreiðslunni eins mikið og mögulegt er,“ segir Karl.

Verulega mikið hefur verið að gera hjá sýkla- og veirufræðideildinni undanfarið en í nýliðnum nóvember mánuði voru tæplega 100.000 sýni greind bara í gegnum landamæraleiðina.

„Þetta er búið að vera ansi mikið langhlaup hérna hjá okkur á deildinni,“ segir Karl um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert