Hafa óskað eftir flutningi frá Sælukoti

Heyrst hefur að nokkrir foreldrar hafi óskað eftir flutningi barna …
Heyrst hefur að nokkrir foreldrar hafi óskað eftir flutningi barna sinna frá leikskólanum Sælukoti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Máli leikskólans Sælukots í Reykjavík er ekki lokið og heyrst hefur að nokkrir foreldrar hafi óskað eftir því að börn þeirra verði færð yfir á aðra leikskóla. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Hyggjast gera vettvangsathugun á leikskólanum

„Við lögðum könnun fyrir foreldra og starfsfólk leikskólans í þarseinustu viku og hún leiddi í ljós nokkur atriði sem við viljum fara betur ofan í.“

Inntur eftir því segist Helgi ekki tilbúinn að greina frá því hvaða atriði það eru. Þau varði þó athugasemdir sem foreldrar og starfsfólk gerði við skólastarfið í könnuninni.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum að vinna í greinagerð út frá þessum athugasemdum sem hafa þegar komið fram og okkur þykir leikskólinn eiga að fá tækifæri til þess að bregðast við þeim áður en við förum að greina frá því hverjar athugasemdirnar voru. Svo eru önnur atriði sem við viljum fara betur ofan í með vettvangsathugun.“

Spurður segist Helgi hafa heyrt af því að einhverjir foreldrar hafi óskað eftir flutningi barna sinna af Sælukoti yfir á aðra leikskóla vegna málsins. Hann geti þó ekki fullyrt um það.

„Málið er að skráningin fer ekki í gegnum okkur svo að við vitum ekki fjöldann. Sjálfstætt starfandi leikskólar hafa nefnilega töluvert sjálfstæði þannig við höfum ekki sama aðgengi að upplýsingum hjá þeim eins og hjá þeim leikskólum sem reknir eru af borginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert